Fyrirspurn um flutningskostnað

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 18:30:40 (2944)

2003-01-22 18:30:40# 128. lþ. 63.92 fundur 363#B fyrirspurn um flutningskostnað# (um fundarstjórn), KLM
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[18:30]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir skýringuna á ástæðu frestunar þessarar fyrirspurnar sem mig svo sem grunaði hver væri. En það er rétt sem hér hefur komið fram að lengi hefur legið fyrir að taka á þessu máli. Ég á sjálfur þingmál sem er m.a. byggt á rökum og verðkönnunum og sýnir það svart á hvítu að landsbyggðarfólk þarf að búa við allt að 108% mun á vöruverði frá því sem ódýrast er, sem oftast er á höfuðborgarsvæðinu, til þess sem gerist á mörgum stöðum úti á landi.

Ég fagna því ef hæstv. samgrh. er að láta klára þá skýrslu sem hann boðaði og hefur verið í vinnslu í ansi langan tíma, sumir segja e.t.v. allt of langan tíma. (Samgrh.: Hver segir það?) Ég hefði gjarnan viljað sjá þessa skýrslu komna miklu fyrr út vegna þess að hæstv. iðnrh. hefur úr þessum ræðustól gumað af því að þetta væri allt saman í gangi og þetta væri allt að koma. Síðan er liðinn langur tími.

(Forseti (ÍGP): Ég vil minna hv. þm. á að þessi dagskrárliður heitir um fundarstjórn forseta en býður ekki upp á efnislega umræðu um aðra hluti.)

Þá kem ég að því sem ég hef rætt hér um, þ.e. að ég sakna þess að þessi umræða skuli ekki hafa farið fram hér. En það hefur komið skýring á því og hún er sú að hæstv. ríkisstjórn er ekki tilbúin með sín gögn til þess að byggja svarið á.