Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 15:13:41 (3097)

2003-01-28 15:13:41# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. nefndi reyndar jökulárnar norðan jökla í framsöguræðu sinni hér áðan. Þannig að ég hef nú talið að Jökulsá á Fjöllum flokkaðist með þeim. (Iðnrh.: Norðaustan.) Norðaustan já, þá getum við nú farið að deila um hvað er norðaustan. Kreppa kemur úr þeim hluta Vatnajökuls þar sem farið er að halla til austurs. Og síðan er það líka að Jökulsá á Fjöllum kemur næstverst út, það er næstversti virkjunarkosturinn frá sjónarhóli umhverfisverndar á eftir Kárahnjúkavirkjun og á undan Þjórsárverum. Er þá ekki rökrétt að reikna með því að ríkisstjórnin vilji fara næst í hann af því hún byrjar á þeim enda listans? Það má spyrja að því. Það eru margir sem ekki hafa fengist til þess að gefa upp á bátinn stóru draumana um að safna öllum jökulánum norðan og norðaustan jökla saman í eina gusu og fara með það í eina virkjun.

Og hvað eru göngin víð? Hvað eru göngin víð úr Hálslóni og austur í Fljótsdal? Hvaða vatn geta þau flutt? Meira en Jökulsá á Dal, svo mikið er víst. Hvaðan gæti það vatn komið? Er ekki Kreppa næst þar fyrir vestan? Og hve gamlar eru síðustu hugmyndir Landsvirkjunar um krana á Dettifoss, af því hann sé fallegastur þegar eru 180 rúmmetrar í honum? Þeir eru búnir að reikna það út að hægt væri að hafa á honum túristakrana og skammta í hann 180 rúmmetra yfir sumarið. Þessar hugmyndir eru nú ekki nema nokkurra missira gamlar. Þannig að við skulum ekki tala um hlutina öðruvísi en þeir eru. Og ríkisstjórn sem hikar ekki við að hjóla í tvö yfir 20 ára gömul friðlönd, Kringilsárrana og Þjórsárver, hvað er henni heilagt?