Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 18:36:34 (3117)

2003-01-28 18:36:34# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[18:36]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað þarf að vanda alla ákvarðanatöku. Það sem ég átti við var ósköp einfaldlega það að við reyndum að hraða þessu sem mest þrátt fyrir að við tækjum yfirvegaðar ákvarðanir. Við erum búin að fjalla það mikið um þetta mál að við þyrftum út af fyrir sig ekki að fara að taka allt frá upphafi til þess að fá þær upplýsingar sem þörf væri á. Þær liggja allar fyrir, það er búið að segja allt í málinu sem segja þarf. En við þurfum auðvitað að fara vandlega yfir alla þætti. Eins og fram hefur komið í umræðunum í dag eru ýmsar flækjur sem við þurfum að gefa okkur tíma til að greiða úr. Við þurfum samt ekki að eyða tímanum í að endurtaka alla hluti. Það er mín ósk að við reynum að hraða þessu sem allra mest og vöndum verkið að sjálfsögðu um leið.

Tölur um atvinnusköpun, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni --- ég sagði í ræðu minni að það væri mikil óvissa í öllum þessum spám, það væri mjög erfitt að sjá þetta allt saman fyrir og þess vegna minnti ég á þá þáltill. sem hér hefur verið lögð fram og lagði gífurlega áherslu á að hún næði hér samþykki, af þeirri einföldu ástæðu að ég lít svo á að við megum ekki líta fram hjá því að þetta hefur áhrif á samfélag manna. Og við eigum auðvitað að reyna að stuðla að því að þau áhrif öll verði sem allra jákvæðust.

Herra forseti. Hv. þm. vildi taka á dagskrá tillögu um þjóðaratkvæði sem þingflokkur hans hefur flutt hér. Ég vek athygli hv. þingmanns á því að þessi tillaga hefur verið flutt áður og þá kom það mjög skýrt fram af hálfu formanns Samfylkingarinnar, ef ég man rétt, hvaða augum við lítum þá tilteknu tillögu.