Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 22:57:11 (3145)

2003-01-28 22:57:11# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[22:57]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég veit nú ekki hvernig hv. þm. gat lesið úr orðum mínum að ég vildi sökkva náttúruperlum Íslands undir vatn eða malbika þær. Ég bara veit ekki hvar í ósköpunum hann heyrði þetta. Ég sagði þetta aldrei.

Ósköp þótti mér leiðinlegt þegar hv. þm. Katrín Fjeldsted talaði um firru hjá mér og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir þetta sé bull. Að nota svona orð í röksemdafærslu, þetta á náttúrlega ekki að eiga sér stað. (ÖJ: Um mann sem talar svo viturlega sem þú.) Ég segi alla vega ekki að hv. þingmenn fari með bull.

En varðandi það að álið þurfi mikla orku þá er það rétt. Það þarf mikla orku. En plastefnin sem hv. þm. nefndi, það er nú aldeilis vandamál að koma þeim fyrir þegar þau eru úr sér gengin. Þau valda enn meiri umhverfismengun. Mér skilst að plastefni séu einn aðalvandinn á sorphaugum stórborga jarðarinnar. Ekki get ég séð að það verði endilega til framdráttar að skipta áli út fyrir plast.