2003-01-29 00:00:52# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[24:00]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi hér upp fjöldann allan af fyrirtækjum sem hefðu blómstrað á síðustu árum og áratugum þrátt fyrir ríkisstjórnarstefnuna. Sum þeirra hafa notið stuðnings, fengið aðgang að ódýru fjármagni og það er vel. En þau hafa ekki blómstrað vegna iðnaðar- og bankamálaráðuneytisins, það held ég að sé misskilningur hjá hæstv. ráðherra, heldur er að þakka hugviti og hugkvæmni þeirra sem standa þar að baki. Og við skulum ekki gera lítið úr því. Við skulum ekki gera lítið úr þeim sköpunarkrafti sem býr hér í atvinnulífinu.

Varðandi þekkingu mína á áliðnaðinum get ég upplýst hæstv. ráðherra um að ég byggi þar á fróðleik annarra manna, að sjálfsögðu. Það sem ég er að segja eru ábendingar sérfræðinga á þessu sviði, ekkert síður en hæstv. ráðherra byggir á áliti sinna sérfræðinga. Þá greinir hins vegar á. Og ég er að skýra hvers vegna ég aðhyllist varnaðarorð þeirra sem benda á að þessi markaður sé að taka eðlisbreytingum og þess vegna getum við ekki reitt okkur á þær spár sem stuðst hefur verið við. Máli mínu til stuðnings hef ég bent á að spár þessara aðila, CRU og Kings, hafa ekki staðist á undanförnum árum. Spár Landsvirkjunar hafa ekki staðist. Spádómar þeirra sem ég hef reitt mig á hafa hins vegar staðist. Þetta er staðreynd málsins. Ég leita að sjálfsögðu til sérfræðinga á þessu sviði sem síðan aftur afla sér heimilda hjá öðrum aðilum. Að auki sakar ekki að beita eigin hyggjuviti líka og afsala sér því ekki með öllu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af því misræmi sem birtist annars vegar í upplýsingum sem koma frá Landsvirkjun og hins vegar frá Sumitomo-bankanum því að jafnan hefur verið bent á þann banka sem eins konar allsherjarvottunaraðila í þessu máli.