2003-01-29 00:01:17# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[24:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er nú spurning hvort það hefur eitthvað upp á sig að bera spurningar fyrir hæstv. ráðherra ef ráðherrann er svo þrotin að kröftum að hún ber ekki við að svara þeim spurningum sem bornar eru upp í andsvörum.

Þetta er eðlilega viðkvæmt mál og það kom glöggt fram hjá ráðherra hér áðan þegar það var rifjað upp að í bráðabirgðaáliti starfshóps um rammaáætlun kom Kárahnjúkavirkjun verst út á þann samsetta mælikvarða sem þar var búinn til. Næstverst Jökulsá á Fjöllum, allt vatnasviðið, og þriðji versti kosturinn var Þjórsárveraveitan. Þetta eru staðreyndir.

Nú reynir hæstv. ráðherra, og reyndar fleiri ræðumenn hér, að gera lítið úr þessu. Það er hamrað á því að aðeins sé um bráðabirgðaálit að ræða og vitnað í blaðagreinar, m.a. frá orkumálastjóra hygg ég vera, að menn verði að hafa í huga að það sé svo mikið afl sem komi út úr Kárahnjúkavirkjun að á orkueiningu séu þessi, vissulega gríðarlega umfangsmiklu, neikvæðu og óafturkræfu, umhverfisáhrif á kílóvattstund ekki svo mikil að það sé óásættanlegt.

Og ég verð að segja alveg eins og er að þessi ágæti maður, og ég segi það hér þó að hann sé fjarstaddur, orkumálastjórinn sem hér var verið að vitna í, féll verulega í áliti hjá mér við þetta innlegg í orkumálaumræðuna og það gera aðrir sem bera sér svipað í munn. Alltsvo, segja menn ekki að það þurfi að reisa tólf aðrar virkjanir í staðinn? En er ekki málið sem við erum hér að ræða það að ekki þarf þessa risavirkjun upp á 750 megavött --- nema ef menn ætla að reisa við hliðina risaálver sem bræðir á fjórða hundrað þúsund tonn af áli?

Ef við værum að hugsa um þarfir innlends orkumarkaðar dygðu aðrar minni og umhverfisvænni virkjanir um áratugi, t.d. ef tekið væri inn meira afl úr jarðhitanum. Þetta er allt háð forsendunum sem menn gefa sér í þessu efni.