Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 15:33:02 (3186)

2003-01-29 15:33:02# 128. lþ. 68.2 fundur 53. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:33]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Bara til að leiðrétta það sem kom fram í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar. Kostnaðurinn vegna þessa 180 tonna skips sem ég gat um áðan að hefði verið hoggið niður var vegna þess að það var tekið í slipp. Það tók slippaðstöðu og það kostaði mikið á dag að hafa skipið í slipp. Ef hins vegar svo væri komið að það yrði ákveðið að farga nokkrum skipum og tekin afstaða til þess og aðstaða í landi búin til, þá yrði kostnaðurinn ekki sá sami. Það þarf því ekki að vera eins dýrt að farga skipum og hér kom fram í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar. Þess vegna tel ég að eðlilegt sé að þessar leiðir séu skoðaðar.

Ég er enn þá þeirrar skoðunar og það væri gaman að heyra frá hv. flm. Einari K. Guðfinnssyni hvort hann líti svo á að hinn skrifaði texti frumvarpsins sé ekki gildur, þ.e. þar stendur skýrt og skorinort að leita skuli leiða til þess að sökkva skipum. Ég get ekki séð að textinn sé annar. Þess vegna er ég að tala um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar þannig að hún geti kallað til sérfræðinga sér til aðstoðar til þess að leita leiða til úrlausnar. Á að vernda suðurströndina eða landbrot með þessum brotajárnsskipum eða hvernig ætla menn að fara með þetta?