Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 13:57:35 (3550)

2003-02-06 13:57:35# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[13:57]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég hlustaði á hann á fyrri stigum þegar við ræddum þessi mál og við erum sammála um flesta þætti þess.

Hann spyr mig tveggja spurninga, annars vegar um niðurgreiðslu og hvort ég sé sérstaklega að tala um niðurgreiðslur á flutningskostnaði. Við segjum í tillögunni að hægt sé að leita leiða. Ég hef stúderað þetta vel og niðurgreiðslur koma sannarlega til greina. Þá geta þær verið atvinnugreinatengdar í raun og veru. Það má líka jafna rekstrarskilyrði fyrirtækja á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar á annan hátt, t.d. í gegnum tryggingagjald og annað. Það eru þekkt dæmi um þetta.

Hv. þm. spyr mig út í sjóflutninga og Skipaútgerð ríkisins, hvort ég væri tilbúinn að samþykkja að skipaútgerð á vegum ríkisins tæki aftur til starfa til að veita aukna samkeppni í skipaflutningum á landsbyggðinni. Ég segi nei við því. Ég er ekki hlynntur ríkisrekstri í skipaútgerð, alls ekki. Það eru aðrar aðferðir sem hægt er að nota við það.

Hv. þm. spyr mig líka út í póstinn. Ég er ekki svo viss um að hækkanir á póstflutningsgjöldum séu meiri nú vegna hlutafélagavæðingar fyrirtækisins. Ég er ekki viss um það. Ég minni á að við að póstinum var breytt hefur ýmislegt annað breyst, t.d. hefur þjónustan verið aukin. Hún hefur verið sett út í verðlagið. Það er alltaf spurning hversu langt á að ganga í þjónustu og hvað hún á að kosta. Ég tel t.d. mikinn kost fyrir atvinnurekstur á landsbyggðinni að geta sett vörur í póst, t.d. núna fyrir kl. 4.30 í dag og að varan getur verið komi á flest pósthús landsins í fyrramálið kl. 9. Með öðrum orðum er varan flutt yfir nóttina.