Varnarskylda NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 15:11:14 (3646)

2003-02-10 15:11:14# 128. lþ. 75.1 fundur 414#B varnarskylda NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég bið hv. þingmann að gæta orða sinna. Ég veit ekki betur en að Íslendingar skipi sér í hóp með þjóðum eins og Norðmönnum og Dönum og að kalla þær þjóðir eða Íslendinga stríðsæsingamenn finnst mér ekki vera samboðið hv. þingmanni. Ég veit ekki betur en að hin norræna hefð og hið norræna samstarf sé mjög ríkt í okkur Íslendingum og viðhaldi samstöðu og samstarfi við hinar Norðurlandaþjóðirnar í mjög viðkvæmum málum eins og þessu. Það höfum við gert og ekki hefur gengið hnífurinn á milli Norðurlandaþjóðanna í þessu máli. Að vera að tala um að við séum með einhverja fylgispekt við Bandaríkjamenn í þessu máli er ekki rétt. En mér heyrist hv. þingmaður vilja fylgja Þjóðverjum og Frökkum í þessu máli án frekari gagnrýni og án efnislegs rökstuðnings vegna þess að það hentar málflutningi hans. (Gripið fram í: Þeir eru ekki ...) Þetta er ekki frambærilegt, hv. þm.