2003-02-12 14:26:35# 128. lþ. 78.16 fundur 155. mál: #A niðurfelling lendingargjalda fyrir millilandaflug á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllum# þál., Flm. ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[14:26]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að bæta örstuttu við í sambandi við markaðssetningu landsbyggðarinnar. Hún er mjög mikilvæg og ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því að ekki er verið að hefja samkeppni um þá ferðamenn sem nú þegar koma vegna þess að allt bendir til þess að við eigum gríðarlega möguleika í aukningu í heimsóknum ferðamanna til landsins þannig að við þurfum að vera undirbúin undir að hingað komi miklu fleira fólk en nú er. Eðli málsins samkvæmt hafa þeir farþegar sem komið hafa til Keflavíkur og stoppað stutt fyrst og fremst lagt áherslu á suðvesturhornið og Suðurland, þeir sem hafa haft tíma. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert. En hitt er mikilvægara fyrir ferðaþjónustuna í heild sinni að við berum gæfu til þess að auka framboð og auka möguleika þeirra ferðamanna sem vilja koma til landsins og þá eru flughafnirnar á Akureyri og Egilsstöðum tilbúnar til þess að fara í slíkan slag en til þess þarf eins og fram hefur komið stuðning á svipuðum nótum og gerist erlendis. Við höfum dæmin fyrir okkur eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni um t.d. norðurhluta Skotlands sem er landsvæði þar sem fleiri búa en á Íslandi en er samt skilgreint sem dreifbýli og er ekki amast við því þó að lendingargjöldin séu tekin af eða séu ekki innheimt á þeim svæðum.

Hvað varðar landsbyggðina höfum við fyrir okkur alveg gríðarlega vel heppnað markaðsátak og vil ég nefna til sögunnar markaðsátak hafnanna til að fá fleiri skemmtiferðaskip til landsins. Það var samstillt átak, ef ég man rétt, hafnanna í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri, Húsavík og e.t.v. Seyðisfirði þó að ég sé ekki alveg viss á því, en það var eins og við manninn mælt að með aukinni kynningu hafnanna og samstilltu átaki varð gríðarleg aukning bæði í komu skipa til landsins og í fjölda farþega. Ef ég er með réttar tölur er farþegafjöldinn bara til Akureyrar kominn upp í ein 24 þúsund á sumri. Hér hefur því orðið alveg gríðarlegur vöxtur.

Ég er ekki í neinum vafa um að ef við höfum slíka möguleika hvað varðar þessa tvo flugvelli úti á landi, þá mun það vinda upp á sig á ekki ósvipaðan hátt og gerðist varðandi farþegaskipin vegna frumkvæðis hafnarsjóðanna sjálfra. Það var ekki opinbert fé heldur voru það hafnarsjóðirnir sjálfir sem stilltu sig saman um að markaðssetja hafnirnar á þeim stöðum þar sem útgerðarmenn þessara skipa koma og ráða ráðum sínum til lengri tíma litið. Þetta er því mjög mikilvægt og mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að við horfum fram á mikla aukningu í straumi ferðamanna til landsins og við verðum að gera ráðstafanir til dreifingar fyrir allra hluta sakir. Hér hefur náttúruvernd verið nefnd til sögunnar og álagið á landið og náttúrlega möguleikar okkar sem víðast á því að afla tekna í þeirri þjónustugrein.

Ég vildi að þetta kæmi fram. Alls staðar þar sem ég hef komið hafa menn talað um nauðsyn þess og ágæti þeirrar hugsunar að hér verði ráðist í nýja markaðssókn á nýjum grunni með tveimur nýjum innkomuflugvöllum til landsins, þ.e. þar sem verður flogið frá útlöndum í reglubundnu flugi.