Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 18:08:56 (4100)

2003-02-26 18:08:56# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[18:08]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur þjóðin skipst í fylkingar út af þessum fyrirhuguðu stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi og ráða þar mestu deilur um umhverfismál. Önnur fylkingin telur með öllu óafsakanlegt að fremja þau náttúruspjöll sem þessar stóriðjuframkvæmdir mundu hafa í för með sér. Hinni fylkingunni þykir það réttlætanlegt á þeirri forsendu að efnahagslegur ávinningur af framkvæmdunum sé svo mikill.

Hv. þm. vísaði í álitsgerðir sem fram hafa komið frá aðilum á vinnumarkaði, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og ýmsum öðrum aðilum. Finnst hv. þingmanni það vera traustvekjandi að yfirlýsingar frá þessum aðilum komu áður en forsendur samninga um framkvæmdirnar lágu fyrir, áður en fyrirsjáanlegt var hvort þær mundu skapa þjóðinni arð eða ekki? Mér finnst þetta ekki traustvekjandi.

Hitt finnst mér líka umhugsunarefni, að það hafa verið uppi varnaðarorð af hálfu efnahagsráðgjafa þjóðarinnar, liggur mér við að segja, í Seðlabanka, í Þjóðhagsstofnun meðan hennar naut við og frá öðrum aðilum um að það þyrfti að grípa tl mótvægisaðgerða ef af þessum framkvæmdum yrði. Nú eru þessar mótvægisaðgerðir komnar upp á vinnsluborðið og þá koma sömu aðilar skyndilega fram og ráðleggja gegn þessum aðgerðum. Mér finnst þessi afstaða harla mótsagnakennd, ég verð að segja það, og mig langar til að heyra álit hv. þingmanns á þessu.