Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 18:13:31 (4102)

2003-02-26 18:13:31# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[18:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það eru þá fleiri ályktanir og yfirlýsingar sem hafa komið frá þessum samtökum því að það er langt síðan þeir aðilar sem hér voru nefndir veittu þessum fyrirhuguðu framkvæmdum stuðning sinn, og það löngu áður en forsendur samninga lágu fyrir. Ég verð að segja að mér finnst það ekki vera traustvekjandi.

Það á að ráðast í nýtingu náttúruauðlindanna innan skynsamlegra marka, segir hv. þm. Um það standa deilurnar. Ég held að þetta snúist um annað og meira en að velta við steini eins og hv. þm. sagði hér. Ég held að þessar framkvæmdir séu ekki sambærilegar við aðrar stóriðjuframkvæmdir eða virkjanir í tengslum við stóriðju frá fyrri tíð og nefni þá sérstaklega það atriði að í fyrsta skipti er nú verið að virkja, og það enga smávirkjun, fyrir eina verksmiðju, fyrir álverksmiðju Alcoa-fyrirtækisins á Austurlandi. Til þess eins er þessi virkjun reist. Í þjóðfélaginu eru síðan hatrammar deilur um hvort verði bókhaldslegt tap á þessari framkvæmd fyrir íslensku þjóðina. Síðan er annar hópur hagfræðinga sem telur að það kunni svo að fara að það verði ekki bókhaldslegt tap, við eigum upp í skuldirnar, en engu að síður sé þetta mjög óarðbært og það væri hentugra að beina atvinnuþróun hér í annan farveg. Í þess að gera þungaiðnað að kjölfestu í íslensku efnahagslífi ættum við að beina efnahagsstarfseminni inn í meiri fjölbreytni en hér er gert með þessari áherslu á stóriðju.

Að þessu mun ég að sjálfsögðu koma síðar í minni ræðu.