Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 17:52:49 (4224)

2003-02-27 17:52:49# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[17:52]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hér heyrum við aftur þann öfgatón í hæstv. utanrrh. sem ég vék að við umræðuna fyrr í dag. Hann stillir upp við vegg mönnum sem efast um hernaðarstefnu Bandaríkjanna, efast um að rétt sé að fara með hernaði með þeim hætti sem þau hafa gert á liðnum missirum og árum. Já, ég hef efasemdir um það hvernig þarna hefur verið farið fram. Og ég hef um það efasemdir hvernig Bandaríkjastjórn undirokar helstu alþjóðastofnanir heimsins, og vísa ég þar til Sameinuðu þjóðanna, hvaða brögðum þau hafa beitt til að knýja fram meirihlutavald í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að knýja fram stefnu sína. Já, ég hef um þetta miklar efasemdir. Ég vil beita annarri aðferðafræði og friðsamlegri sem þegar allt kemur til alls var verið að reyna að beita á Balkanskaganum þegar Bandaríkjamenn og helstu stuðningsmenn þeirra knúðu fram þá stefnubreytingu sem varð að lokum ofan á. Ég er andvígur þessari hernaðarhyggju sem er að grafa um sig í alþjóðasamfélaginu og ég hef andæft því að Íslendingar samþykki þá stefnu og fylgi Bandaríkjamönnum í einu og öllu eins og þessi ríkisstjórn hefur gert og þessi hæstv. utanrrh.