Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:29:31 (4311)

2003-03-03 18:29:31# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:29]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og fyrir hvað hvað hún hefur verið jákvæð. Mér sýnast allar líkur á því að frv. fái þá umfjöllun í nefnd að hratt ætti að geta gengið fyrir sig að vinna það. Ég er mjög þakklát fyrir að stjórnarandstöðuflokkarnir leggjast ekki gegn málinu.

Auðvitað hefur ýmislegt komið upp í umræðunni sem ástæða hefði verið til þess að koma inn á. Hv. þm. Magnús Stefánsson og eins hv. þm. Jóhann Ársælsson hafa reyndar svarað ýmsu sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Mér fannst svona örlítill blæbrigðamunur á málflutningi þeirra hv. þm. sem töluðu frá flokki Vinstri grænna. En það kemur bara í ljós síðar hver afstaða þingflokksins í raun er. Eins og hér kemur fram er þessi verksmiðja komin í samkeppnisrekstur og vissulega breytir það ýmsu. En það er mikilvægt, eins og ég hef alltaf sagt, að hér verði áfram samkeppni á markaðnum, samkeppni í sölu á sementi og á það verður lögð áhersla áfram að framleiðsla haldi áfram. Það verður látið á það reyna að framleiðsla haldi áfram á sementi í verksmiðjunni.

[18:30]

Hvað varðar starfsfólk breytist lagaleg staða þess ekki vegna þess að fyrirtækið er nú þegar hlutafélag. Hins vegar er aldrei hægt að fullyrða það við sölu hvað nýir eigendur gera nákvæmlega þó að hægt sé að setja þar ákveðin skilyrði. Mér er kunnugt um stöðu kaupstaðarins, stöðu bæjarins hvað varðar lóðina og auðvitað verður það á einhverju stigi tekið upp á milli seljanda og bæjarfélagsins.

Það má alltaf deila um hvort tekið hafi verið nægilega hratt á málum af hálfu iðnrn. Það hefur verið heilmikil vinna í gangi og eins og hv. þm. vita hafa mál verið fyrir eftirlitsstofnunum og gengið hægt að fá svör, t.d. frá ESA og reyndar ekki endanleg svör komin enn. Ég lít nú svo á að það sé eitt af þeim sóknarfærum sem eru í dag að ekki eru komin endanleg svör, það er mögulegt að þau verði á þann veg að þau styrki samkeppnisstöðu fyrirtækisins.

Þá má einnig nefna það sem sóknarfæri að verksmiðjan fær að öllum líkindum frekari verkefni í sambandi við endurvinnslu efna. Ég geri ekki lítið úr þeim málflutningi sem hefur átt sér stað hér á hv. Alþingi af hálfu þingmanna Vinstri grænna sem hefur verið hér til umfjöllunar. Ég geri mér grein fyrir að það er allt flutt með það í huga að reyna að styrkja stöðu verksmiðjunnar.

Hvað það varðar, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á, hvernig ég sæi fyrir mér þá endurskipulagningu sem gæti skilað nýjum eigendum hagnaði, þá er ég kannski búin að koma inn á það og hann svaraði því nú að sumu leyti sjálfur með því að nefna leikreglurnar, að leikreglurnar eru ekki skýrar í dag, og það er eitt af því sem getur skipt miklu um framhaldið.

Hvað varðar þá úttekt sem fer fram af hálfu Hagfræðistofnunar Háskólans og lýtur að því að fara yfir framtíðarhlutverk verksmiðjunnar og þjóðhagslegt gildi hennar þá höfum við ekki fengið endanleg svör um það en það ætti að styttast og vonandi gerist það á meðan málið er til umfjöllunar í iðnn. og að þá verði hægt að svara því frekar.

Um það að þessi verksmiðja muni ekki taka þátt í uppbyggingu á Austurlandi hvað varðar álver og virkjun, stíflu o.fl., þá er það í raun ákvörðunarefni fyrirtækisins, stjórnar og forstjóra hvort tekið er þátt í verkefni sem þessu. Við vitum að ekki var hægt að ætlast til þess að jöfnunargjaldið gilti hvað varðar þennan mikla flutning, það hefði hækkað um of verð á sementi á almennum markaði, og þess vegna var það gert nú eins og hefur verið áður, t.d. í sambandi við Blönduvirkjun, að jöfnunargjald nái ekki til framkvæmda sem þessara, og ég held að það sé nú eiginlega ekki þægilegt að gagnrýna það.

Síðan eru það eignirnar og verðmætið sem verksmiðjan á uppi á Sævarhöfða, sem nú hefur fengist heimild til að kaupa með fjárlögum. Það mál er í vinnslu og ég reikna með að það verði leyst í tengslum við lausn málsins í heild sinni, og þá er ég að tala um í tengslum við söluna.