Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:35:40 (4801)

2003-03-11 22:35:40# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:35]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú svo að hv. þm. Halldór Blöndal vitnar gjarnan til ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og að þá hafi allt verið í kaldakoli. Það er rétt að mörgu leyti. En á undan henni sátu tvær ríkisstjórnir undir forustu sjálfstæðismanna og það var allt í kaldakoli þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við --- eftir þessar ríkisstjórnir sjálfstæðismanna. Það er þess vegna kannski svolítið skondið að hlusta á hv. þm. vera sífellt að sækja sér rök aftur í þann tíma.

En ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar lagði þó grunninn að þeim stöðugleika sem náðist í þjóðfélaginu og það verður ekki frá þeirri ríkisstjórn tekið að hafa tekið á því máli. Á þeim grunni hafa þær ríkisstjórnir sem eftir komu getað byggt og atvinnulífið og þjóðfélagið náð því jafnvægi sem það hefur getað verið í.

En hv. þm. lét sig nú hafa það að halda því fram að ég hafi einhvern tíma stutt frjálst framsal á aflaheimildum. Það er af og frá eins og hv. þm. veit vel sjálfur. Allt frá því að ég kom hér fyrst inn á Alþingi hef ég barist gegn því fyrirbrigði, þessu einkaeignarhaldi á veiðiréttindum á Íslandsmiðum, og mun gera það örugglega á meðan ég hef einhverja möguleika til þess. Vonandi tekst nú að ná áfanga í því máli á næstunni, það er a.m.k. meiri ástæða til að halda að það takist núna en oft áður.

Ég vil síðan taka fram að það er af og frá að hægt sé að væna okkur samfylkingarmenn um að vera neikvæðir hvað varðar þorskeldi eða slíka starfsemi sem hér er verið að ræða um, vegna þess að hér liggja fyrir tillögur frá samfylkingarmönnum um það efni.