Meistaranám iðngreina

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:53:19 (4852)

2003-03-12 11:53:19# 128. lþ. 97.6 fundur 656. mál: #A meistaranám iðngreina# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:53]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Spurt er hvort endurskoðun standi yfir á meistaranámi í iðngreina eða hvort til standi að hefja slíka endurskoðun til samræmis við það sem gerist í Evrópu og á Norðurlöndunum. Meðfylgjandi er svar mitt við þessu:

Meistaranám er ætlað þeim sem lokið hafa sveinsprófi í löggiltri iðngrein og starfa að því loknu á vinnumarkaði í eitt ár og vilja afla sér aukinna starfsréttinda. Umhvrn. löggildir iðnmeistara samkvæmt 52. gr. skipulags- og byggingarlaga í byggingargreinum, málmiðngreinum og rafiðngreinum. Í öðrum greinum er það ekki skilyrði fyrir auknum starfsréttindum að viðkomandi hafi lokið meistaraskóla.

Í öllum tilvikum er þó nokkur aðsókn í þetta nám af hálfu þeirra sem vilja afla sér réttinda til að hafa nemendur á námssamningi. Óhætt er að segja að á síðustu árum hafi fjarað undan meistaranámi hér á landi. Aðsókn að náminu er mismunandi eftir greinum. Þess hefur t.d. orðið vart að aðsókn í meistaranám er lítil sem engin í bókiðngreinum, málmiðngreinum og í fataiðnaði.

Einnig hefur komið fram að skortur á menntuðum meisturum hefur í sumum tilvikum tafið fyrir nýliðun í viðkomandi iðngrein. Það er því greinilegt að þróun á vinnumarkaði síðustu árin hefur leitt til þess að þörfin fyrir meistaranám er mismunandi mikil eftir greinum og ekki sú sama og áður var. Staða og hlutverk meistaranáms hefur því verið til umræðu af og til hjá aðilum vinnumarkaðarins og einnig hjá þeim sem fjalla um menntun iðnaðarmanna.

Hins vegar er rétt að taka fram að fyrirkomulag á meistaranámi í Evrópu er með mjög misjöfnu sniði. Ekki er hægt að tala um að það sé eitthvert samræmt fyrirkomulag innan Evrópusambandsins á meistaranámi. Í sumum þjóðlöndum, t.d. í Þýskalandi, er löng hefð fyrir löngu meistaranámi og mjög skipulögðu. Í öðrum löndum er nánast ekki um neitt meistaranám að ræða þannig að það er ekki hægt að lýsa málinu þannig að það sé í gangi einhver heildarafstaða til meistaranáms innan Evrópusambandsins. Þar eru málin í mjög ólíkum farvegi og má líkja ástandinu við það að í sumum þessum Evrópulöndum stöndum við frammi fyrir svipuðum vandamálum og hér.