2003-03-14 00:55:16# 128. lþ. 100.43 fundur 396. mál: #A húsnæðissamvinnufélög# (heildarlög) frv. 66/2003, Frsm. meiri hluta ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[24:55]

Frsm. meiri hluta félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er tvennt sem ég held að sé ástæða til að halda til haga eftir ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um þetta mál þannig að það valdi ekki misskilningi. Öll lán sem hvíla á íbúðum sem eru í þessu formi, húsnæðissamvinnufélagsformi, hvíla á húsnæðissamvinnufélaginu. Eigandi húsnæðisins er húsnæðissamvinnufélagið. Ég held að það verði því að teljast í hæsta máta eðlilegt að húsnæðissamvinnufélögin, eigendurnir, beri líka ábyrgð á því meiri háttar viðhaldi sem þarf að hugsa fyrir við fasteignir. Það er ekki síst nauðsynlegt að þannig sé þessu háttað svo að húsnæðið standi undir áhvílandi lánum og verði ekki í niðurníðslu og fasteignin sem slík tapi verðgildi sínu.

Hitt sem ég vildi halda til haga varðar lagaskilin. Hér er ekki gert ráð fyrir neinni afturvirkni því í 31. gr. er gert ráð fyrir því að búsetusamningar sem gerðir hafa verið á grundvelli eldri laga haldi gildi sínu. Hins vegar geta aðilar óskað eftir að samþykktir og búsetusamningar í tíð eldri laga fari samkvæmt þessum nýju lögum. Það er eingöngu ef menn óska eftir því. Að fullu er gert ráð fyrir að eldri samningar haldi gildi sínu.