2003-03-14 02:53:06# 128. lþ. 100.40 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, Frsm. ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[26:53]

Frsm. sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Hér hafa orðið býsna fróðlegar umræður. Bæði er það réttur þingmanna að kveðja sér hljóðs til að viðra skoðanir sínar og inna eftir sjónarmiðum viðmælanda sinna í hinu háa þingi og að sama skapi er eðlilegt að menn ræði fleiri þætti lagabálksins eða löggjafarinnar um stjórn fiskveiða og þeirra ýmsu álitamála sem þar eru uppi þegar fyrir þingi liggja tillögur til breytinga á einhverjum ákvæðum þeirra. Ég verð að segja þó eins og er frá mínu brjósti, herra forseti, að ég hef ekki tekið þátt í þessari umræðu nema tiltölulega skamma stund miðað við hversu lengi Íslendingar hafa rætt stjórn fiskveiða eða hvort og hvenær nauðsyn beri til að hafa stjórn á þeim. Mér skilst að sú umræða hafi staðið hér í hálfan þriðja áratug eða svo. Ég hef ekki tekið þátt í henni nema lítinn hluta þessa tíma.

Þess vegna verð ég því miður að viðurkenna, herra forseti, að ég veit hreinlega ekki hvort nokkrum þótti sjálfsagt í upphafi, einhvern tíma á níunda áratugnum, að setja í lög sem þá voru í gildi um stjórn fiskveiða, og voru raunar talsvert ólík lögunum eins og þau eru í dag, ákvæði af því tagi sem hér eru til umræðu. Ég hreinlega veit það ekki. Ég veit ekki hvort menn höfðu þá hugkvæmni að sjá fyrir allt sem síðan hefur gerst. En staðreyndin er náttúrlega sú, herra forseti, að á þeim tíma sem um er liðinn hefur orðið býsna mikil þróun á veiðarfærum og veiðiaðferðum sem kemur fram í því að í mörgum tilvikum hefur mönnum tekist að stýra því hvaða fisktegundir þeir eru að sækja í sem byggist þó ekki eingöngu á veiðarfærum heldur einnig á þekkingu á veiðisvæðum. Þetta og fleira hefur borið á góma í þessari umræðu og einnig hitt að þrátt fyrir þessa kunnáttu er ekki hægt að stýra svo vali veiðarfæranna á fiski að þau velji fyllilega eftir stærðum þann afla sem kemur um borð, eða kemur að borði skulum við segja.

Annað atriði kom hér upp sem mér finnst alltaf svolítið sérkennilegt þegar minnst er á að einhverjir hafi týnt fiski. Ég hef aldrei getað komist að þeirri niðurstöðu, herra forseti, þegar ég hef velt fyrir mér þeim atriðum sem þar hafa komið til umræðu, að hafrannsóknamenn hafi týnt fiski. Mér hefur skilist, herra forseti, að náttúrufræðin öll í heild sinni, ef við reynum að heimfæra þau upp á hafið, geti sýnt okkur fram á að í þeirri lífkeðju sem hrærist í hafinu sé maðurinn í raun síðasti aðilinn. Þá hafa býsna margir komið að og tekið sér bita af nytjastofnum okkar.

Hér hefur líka verið sagt eins og raunar oftar, herra forseti, að kvótakerfi feli í sér tilhneigingu til að velja afla. Ég verð að viðurkenna að ég var á sjó áður en kvótakerfið var sett á. Þegar það var held ég að hafi hreinlega ekki verið nein lög í gildi um stjórn á veiðum, þ.e. á því hvað menn mættu og mættu ekki. Menn voru afskaplega tillitslausir við auðlindina í að velja sér afla á þeim tíma og það var einmitt á þeim tíma sem menn stunduðu það sem var nefnt áðan af síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Vestf., þeir veiddu í bræðslu, ekki einungis mjög ódýrar fisktegundir, heldur þær sem eru í dag mjög dýrar og verðmætar. Ég vil líka viðurkenna, herra forseti, að það hefur að margra manna mati sem taka þátt í þessari umræðu og hafa fengið hlutverk sem felur í sér ábyrgð reynst nauðsynlegt að fjölga smám saman þeim tegundum sem settar eru í kvóta, ef svo má segja, þ.e. sem tíundaðar eru í löggjöfinni um stjórn fiskveiða vegna þess að þess hefur hreinlega orðið vart í mörgum tilvikum að snjallir veiðimenn haga þannig veiðum sínum og vali veiðarfæra að þeir draga á land tegundir sem eru utan stjórnkerfisins, og rannsóknarmenn og sjómenn hafa orðið sammála um að þær tegundir séu í sumum tilvikum að komast í hættu. Það eru alltaf ástæðurnar, herra forseti, fyrir því að fjölgað hefur verið tegundum sem lögin um stjórn fiskveiða taka til. Það er auðvitað rétt, sérstaklega ef við lítum yfir ástand þorskstofnsins, að við höfum ekki náð árangri, ekki þeim árangri að byggja stofninn upp þannig að hann geti stækkað eða hafi getað stækkað. En ég verð að viðurkenna, herra forseti, að svo öflug eru veiðarfærin og veiðiskipin að mér er enginn efi á því að ef lög af þessu tagi, eins og þau hafa þróast á þessum 20 árum eða svo, hefðu ekki verið sett, ef þeim hefði ekki verið breytt nokkurn veginn með þeim hætti sem gert hefur verið, stæðum við ekki hér í dag að ræða um þennan vanda, heldur þann hvað hefði eiginlega orðið af fiskstofnunum. Mér sýnist einfaldlega að þannig sé málið fyrir Kanadamönnum við Atlantshafsströndina, a.m.k. hvað þorskveiðar varðar. Þar hefur tekist að byggja upp aðra stofna og það er einmitt það sem gerst hefur hér. Það hefur tekist hér, svona í aðalatriðum með stjórnkerfi og vísindaaðferðum sem þetta stjórnkerfi byggir á, að byggja upp aðra stofna.

[27:00]

Minnst hefur verið hér á annað atriði sem ég verð að viðurkenna að er álitaefni fyrir mér í umræðunni, þ.e. hvort við náum að dekka það vandamál sem við er að fást með því hlutfalli afla, eða einhverju örlítið hærra, sem minnst er á í þessum ákvæðum sem við nú ræðum. Ég veit ekki svo gjörla hvað það vandamál er. Ég heyri afskaplega mörg hlutföll nefnd um það hvað sé brottkast afla og verð ég að viðurkenna að mér þykir sumt af því vera hreinlega slæm ummæli um þá stétt manna sem ég hef alist upp við að bera sem mesta virðingu fyrir vegna vinnu þeirra og hvernig þeir stunda störf sín, þ.e. sjómenn og útvegsmenn, ekki síst skipstjórnarmenn. Ég hef aldrei séð ástæðu til þess að falla frá því að bera virðingu fyrir þeim mönnum af þeim ástæðum sem ég nefndi. Þess vegna hefur mér þótt stundum, herra forseti, að einn og einn maður hafi ótrúlega stór orð um þetta viðfangsefni. En það er svolítið vandasamt að finna lausn sem hentar. Það er okkur alveg ljóst.

Upphafið að þessari umræðu eins og hún hefur þróast, þ.e. umræðunni í kvöld snýst ekki um þetta ákvæði heldur um önnur atriði sem umlykja umræðuna alla í heild sinni um stjórn fiskveiða. Hv. 4. þm. Reykn. sagði mjög snemma að um væri að ræða rétt eða óvissu um rétt þeirra sem hafa stundað fiskveiðar og hafa haft atvinnu af nýtingu þessarar sameiginlegu auðlindar þjóðarinnar. Það er alveg rétt. En ég vil líka viðurkenna, herra forseti, að mér hefur virst þær tillögur sem núna eru uppi í stjórnmálaumræðunni séu helst tillögur Samfylkingarinnar sem yrðu til þess að skapa óvissu um þann rétt, rétt þeirra sem hafa stundað fiskveiðar og hafa samkvæmt ákvæðum laganna eins og þau eru nú verið sæmilega öruggir --- sæmilega --- um að réttur þeirra verði ekki fyrir borð borinn eða komist ekki í óvissu.

Herra forseti. Mér hefur skilist að ef lögunum verður ekki breytt að marki þá höfum við vissu fyrir því í lögunum um stjórn fiskveiða að auðlindin verði áfram sameign þjóðarinnar, að nýtingu hennar verði í aðalatriðum stjórnað á grundvelli laga sem stjórnvöld framkvæmi og framfylgi og að rétturinn til nýtingar hverju sinni sé takmarkaður við fiskiskip í eigu manna eða fyrirtækja sem eru félög manna. Það rekur alltaf að mönnum.

Ég velti því líka fyrir mér, herra forseti, vegna þess sem var sagt fyrr í umræðunni --- nei, það var raunar ekki fyrr, herra forseti. Það var aðeins seinna að einhver þingmaður sagði hér að hann eða hún vissi ekki um aðdraganda að tillögunni eða ákvörðuninni um skipan auðlindanefndar. Ég þóttist ekki vera mjög óviss um það, en vegna þess að það kom fram líka, herra forseti, að þar hefðu jafnaðarmenn ekki samþykkt og ekki átt þátt í aðdragandanum, þá liggur það nú fyrir, herra forseti, að tillaga til þál. var flutt um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald og 1. flm. var hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar. Ég get séð í skjölum þingsins að meðal þeirra sem samþykktu tillöguna --- hún var samþykkt með örlítilli breytingu --- voru a.m.k. tveir núverandi hv. þm. Samfylkingarinnar, annar þeirra formaður flokksins. Það getur verið að þeir hv. þm. teljist ekki jafnaðarmenn í dag. En svo mikið veit ég að þegar tillagan var lögð fram voru allir tillöguflytjendur jafnaðarmenn. Þeir töldu það sjálfir og það voru fleiri hv. þingmenn sem töldu þá jafnaðarmenn. (SvanJ: Það var talað um þingflokk jafnaðarmanna.) Herra forseti. Ég get alveg breytt orðum mínum og talað um þingflokk jafnaðarmanna. (Gripið fram í: Rifjum upp hverjir voru í honum.) Það þarf ekki að rifja upp. Þetta liggur fyrir í þingskjölum. Það geta fleiri þingmenn kynnt sér. En ljóst er af skjölum og þeirri umræðu og atkvæðagreiðslu sem þá fór fram að einhverjir úr þingflokki jafnaðarmanna áttu aðild að flutningi tillögunnar og samþykkt hennar. (JÁ: Og hvað með það?) Herra forseti. Ég hygg að hv. þingmaður geti komið í ræðustól enn einu sinni ef hann kýs. En úr ræðustól var sagt fyrr í kvöld í umræðunni að þingmenn jafnaðarmanna hefðu ekki átt aðild að tillögunni og ekki átt aðild að samþykkt hennar. Mér sýnist að einhverjir þeirra hafi átt það, nema að einhverjum þeirra sé nú neitað um að vera jafnaðarmenn eða að hafa verið jafnaðarmenn. (SvanJ: ... í þingflokki jafnaðarmanna.) Já, já. Er það það sem skiptir öllu máli? (SvanJ: Það var það sem ég sagði.) Hins vegar vil ég segja, herra forseti, vegna þess sem sagt var um nefndina að mér sýndist hún ekki öll vera eingöngu skipuð trúnaðarmönnum stjórnarflokkanna. Ég er enn þá þeirrar skoðunar, herra forseti, að hún hafi verið þannig skipuð vegna þess að menn vildu með því ná sátt við tillöguflytjendur og aðra hv. þingmenn sem með þeim störfuðu hér í þingi.

Ég hef aldrei skilið þau svör sem hér hafa komið fyrir þingheim svo að hæstv. ríkisstjórn hafi lofað að leggja fram tillögur eða frumvarp að stjórnarskipunarlögum. En það er rétt að sagt var alveg berum orðum og liggur fyrir á þingskjölum að það hafi verið í huga ríkisstjórnar. (JÁ: Trúirðu ekki Davíð?) Herra forseti. Þetta liggur fyrir á þingskjölum. Það þarf ekki frammíköll til að rekja það. (JÁ: ... á Davíð.) Herra forseti. Ég hygg að hv. þm. geti komist að til þess að rekja, ef hann vill, frekar það sem þegar hefur verið rakið úr ræðustólnum af þingskjölum sem liggja fyrir. (Gripið fram í.) Það er annað mál, herra forseti, hvers vegna, ef það var loforðið. Ég skildi ekkert af þessu sem loforð og ég hygg að hægt sé að rekja það af þeim orðum sem hér eru skráð.

Mér virðist, herra forseti, að menn verði að leggja spurningar sínar fyrir þá sem þeir vilja fá svör frá. Ef þeir vilja svör frá hæstv. ríkisstjórn þá verða þeir að leggja spurningar fyrir hana, ekki aðra. Ég get ekki svarað fyrir aðra en sjálfan mig. En mér er ljóst, herra forseti, að menn hafa mikinn áhuga á þessu máli og sjálfsagt er að þeir geti gengið eftir þeim upplýsingum sem þeir vilja fá. En ég sé ekki hvernig það tengist þingmálinu, herra forseti. Ef þingmálið á að gjalda þess þá finnst mér það mjög sérkennilegt. En auðvitað er réttur manna fyrir hendi.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé til bóta fyrir þá menn sem stunda fiskveiðar að þetta ákvæði nái fram að ganga. Þess vegna hefur nefndin komist að þessari niðurstöðu. Hv. sjútvn. er sammála um þetta þingmál.