2003-03-14 03:45:24# 128. lþ. 100.40 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[27:45]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Ragnar Árnason sagði áðan að yrði lögunum um stjórn fiskveiða ekki breytt yrði auðlindin áfram í þjóðareign. Ég hef öndverða skoðun á þessu máli. Ég tel reyndar að stór meiri hluti þjóðarinnar hafi aðra skoðun á málinu. Menn telja ekki að það geti kallast þjóðareign sem einstaklingar geta keypt og selt og farið með eins og aðrar eignir sínar eða réttindi. Þeir sem hafa með þessi réttindi að gera eru eigendur og forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa þessi réttindi á sínum höndum. Þeir virðast margir hverjir líta svo á að þeir eigi þessa auðlind og tala til þeirra sem hafa aðrar skoðanir á þessu máli eins og þeir eigi auðlindina. Um þetta mætti nefna mörg dæmi en ég ætla einungis að vitna í einn forsvarsmann stórs útgerðarfyrirtækis. Í Morgunblaðinu sl. þriðjudag, þann 11. mars, er sagt frá ræðu Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á aðalfundi fyrirtækisins. Þar lýsir hann afstöðu sinni til þessa máls með skýrum hætti. Með leyfi hæstv. forseta, les ég upp úr Morgunblaðinu:

,,Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir að úthlutun veiðiheimilda í kvótakerfinu sé réttlát. ,,Hún er raunar réttlát að mínu viti þar sem þeir aðilar sem tekið hafa áhættu í fjárfestingum í sjávarútvegi, atvinnutækin sem eru grundvöllur þessa alls, nýta auðlindina og skila í þjóðarbúið hámarksafrakstri,`` sagði Björgólfur í ræðu sinni á aðalfundi SVN. Hann sagði einnig að auðsöfnun í sjávarútvegi sé ekki meiri en í öðrum atvinnugreinum og að nýliðun innan núverandi kerfis sé möguleg.``

Hann er á þeirri skoðun að það sé mögulegt, (Gripið fram í: Hvernig þá?) a.m.k. fræðilega mögulegt að einhverjir nýir geti komist að. Þetta er reyndar umdeilt atriði og má segja að þeir sem hafa reynt fyrir sér á undanförnum árum hafi flestir afsannað kenninguna með því að fara á hausinn, a.m.k. þeir sem ég hef séð gera tilraunina. Ég held að þurfi ekki frekari vitnanna við. Menn geta sest með blýantinn sinn niður, nýjasta kvótaverðið og reiknað út hvað kostar að hefja útgerð á Íslandi og kaupa kvóta á markaðnum. Það segir hverjum sem hafa vill þá sögu að slík fjárfesting sé óðs manns æði. Eigi hann svo mikla peninga að hann geti sett á fót útgerð sem hefði næg verkefni þá gæti hann farið í allar aðrar fjárfestingar og haft miklu meira út úr því en að kaupa sér veiðiheimildir og skip.

Í dag er sjöfalt dýrara að hefja útgerð en það var áður en kvótakerfinu var komið á. Enda er það þannig að fólk flýr úr sjávarþorpunum allt í kringum landið vegna þess að það er engin von og engin framtíð. Ef útgerðarmaðurinn á svæðinu fer á hausinn eða ákveður að hætta þá getur enginn keypt af honum. (Gripið fram í.) Það sem gerist í öllum tilfellum er að viðkomandi útgerðarmaður sameinar útgerðina einhverju af þessum stóru útgerðum og fær hlutafé í stóra fyrirtækinu. Þannig gerist þetta. Þetta ástand er ekki útgerðarmönnum í landinu að kenna. Þetta ástand á rætur sínar hér á hv. Alþingi. Það er hér sem menn hafa ákveðið reglurnar. Ég er ekki að skamma útgerðarmenn í landinu. Ég get hins vegar verið á öðru máli en þeir, þ.e. þeir sem vilja hafa reglurnar eins og þær eru. En þessi ágæti forstjóri, Björgólfur Jóhannsson, segir í sömu grein, með leyfi forseta:

,,Til frekari rökstuðnings þessu`` --- þ.e. því að úthlutun veiðiheimildanna sé réttlát --- ,,vil ég benda á veiðar á kolmunna, sem voru frjálsar þar til á síðasta ári. Útgerðarmenn hafa á undanförnum árum fjárfest fyrir milljarða til að geta stundað þessar veiðar. Þær hafa tryggt stöðu okkar í samningum við önnur ríki þegar kemur að skiptingu kolmunnans milli þeirra ríkja sem eiga rétt á úthlutun.

Umtalsvert tap var af veiðunum lengst af og það var ekki fyrr en á síðasta ári sem afkoman var í lagi. Hverjir áttu svo að fá kvótaúthlutun í kolmunnanum? Þeir sem lögðu í kostnaðinn og tóku áhættuna eða hinir sem sátu heima? Sama á við um úthlutun á úthafskarfa og í norsk-íslensku síldinni, rækjunni á Flæmingjagrunni og þorskinum í Barentshafi. Þau réttindi sem við Íslendingar höfum á þessum svæðum eru til komin vegna þess að útgerðarmenn lögðu í áhættu við að skapa þá veiðireynslu sem skilaði okkur úthlutun. Við hefðum ekki eitt kíló í úthlutun ef ekki hefðu komið til veiðar á rækjunni og þorskinum í Barentshafi. Varðandi síldina, kolmunnann og úthafskarfann þá skiptir hin líffræðilega dreifing stofnanna einnig máli en ef við hefðum ekki stundað þessar veiðar væri hlutur okkar afar rýr. Hér vil ég benda á að öllum var frjálst að vinna sér inn veiðireynslu.``

Björgólfur rakti síðan söguna frá upphafi kvótakerfisins ...

(Forseti (HBl): Má ég biðja hv. þm. ...)

Hæstv. forseti. Ég er að ljúka þessari tilvitnun.

(Forseti (HBl): Ég bið hv. þm. afsökunar að ég trufla hann. Ég vil biðja hv. þingmenn sem hér eru að vera ekki í samræðum beint fyrir framan ræðumann. Ég óska eftir því að hv. þingmenn virði rétt þingmannsins til þess að tala.)

Björgólfur rakti síðan söguna frá upphafi kvótakerfisins og markmiðin með því og benti á að árið 1984 voru gerðir út 518 bátar stærri en 20 rúmlestir. Nú væru þeir 233 og væru þá bátar án aflahlutdeildar ekki meðtaldir. Þetta væri hagræðingin sem skapast hefði í fiskveiðum á Íslandi og var meginmarkmið laganna um stjórn fiskveiða.

Þetta sagði Björgólfur. Hagræðingin var meginmarkmið laganna um stjórn fiskveiða.

Hæstv. forseti. Með ræðunni vildi forstjóri SVN rökstyðja þá skoðun sína að úthlutun veiðiheimilda væri réttlát. Ég ætla að fara yfir þessar röksemdir Björgólfs í þeirri röð sem ég las þær upp úr blaðinu.

Hann sagði að úthlutunin væri réttlát vegna þess að menn hefðu tekið fjárhagslega áhættu í sjávarútvegi. Það væri rétt ef allir sem tilbúnir eru að taka áhættu í sjávarútvegi sætu við sama borð gagnvart úthlutun, þá væri þetta rétt. En það er ekki rétt vegna þess að menn hafa ekki búið við jafnræði í þessari grein.

Björgólfur sagði að auðsöfnun væri ekki meiri en í öðrum greinum. Við því kann ég ekki svör. En jafnvel þó það væri rétt að auðsöfnun væri ekki meiri í sjávarútvegi en öðrum greinum þá réttlætir það ekki einkaeinokun á nýtingu sameiginlegrar auðlindar.

Til rökstuðnings á rétti útgerðarmanna til þess að hafa einkarétt á þessari úthlutun benti forstjórinn á veiðar úr stofnum sem við eigum með öðrum þjóðum, á kolmunna, úthafskarfa, norsk-íslensku síldinni, rækjunni á Flæmingjagrunni og þorskinum í Barentshafi. Hann sagði að öllum hefði verið frjálst að vinna sér inn veiðireynslu í þeim stofnum. Þetta eru ágæt rök fyrir tímabundnum réttindum í þessum stofnum og ekkert meira. Það er fáránlegt til framtíðar litið að örfáar útgerðir eignist veiðirétt um alla framtíð eins og rökin standa til. Hvað gerist t.d. ef stofninn í norsk-íslensku síldinni stækkar og fer að ganga á Íslandsmið? Rök Björgólfs ná ekki máli sem rök fyrir einkarétti til úthlutunar úr okkar sameiginlegu auðlind á heimamiðum til framtíðar litið, það hljóta allir menn að sjá.

Björgólfur rakti sögu kvótakerfisins, eins og ég sagði áðan, og sagði að hagræðingin væri meginmarkmið laganna um stjórn fiskveiða. Mér finnst best að enn einu sinni verði lesin upp þessi klásúla úr lögunum um stjórn fiskveiða, en þar stendur:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``

Það er full ástæða til að minna á þetta vegna þess að það er auðséð að þessi ágæti forstjóri er farinn að líta á þjóðarauðlindina sem sína eigin eign. Hann rökstyður þá skoðun með því sem ég fór yfir áðan, úthlutunin sé réttlát vegna þess að útgerðarmenn hafi fjárfest í sjávarútveginum. Sannleikurinn er sá að þeir útgerðarmenn sem hafa fjárfest í veiðiheimildum, þ.e. ekki allir enda læðist að mér sá grunur að nokkuð stór hluti veiðiheimildanna sem þessi stóru útgerðarfyrirtæki hafa yfirráð yfir hafi verið í þeirra höndum alveg frá því að farið var að úthluta, hafa kannski ekki keypt einhver ósköp af þeim. Reyndar hefur LÍÚ haldið því fram að þetta hafi allt saman meira og minna skipt um eigendur. En hvernig hefur það gerst? Með því að einhver fyrirtæki hafa verið sameinuð. En eigendurnir eru þeir sömu þó að þeir hafi búið til einn pott úr eigunum sínum. Hvernig er þá hægt að halda því fram að þetta hafi verið selt með þeim hætti að menn hafi keypt á fullu verði?

Ég held að ekki sé hægt að halda því fram að þeir sem hafi keypt veiðiheimildirnar af öðrum eigi þær til framtíðar. (LB: Er ekki mynd af þingflokki íhaldsins uppi á vegg hjá þeim?) Hv. þm. kallar hér fram í og spyr hvort ekki sé mynd af þingflokki Sjálfstæðisflokksins uppi á vegg hjá LÍÚ-forustunni. En nú spyr hann þann sem ekki veit. Ég hef ekki hugmynd um hvort það er mynd af þingflokki Sjálfstæðisflokksins uppi á vegg hjá LÍÚ-forustunni. En ég held að það væri full ástæða til að hafa hana þar.

Mér fannst hv. þm. Árni Ragnar Árnason verða nokkuð fyrtinn áðan en ég skil það vel. Mönnum getur ekki liðið vel undir ræðum af því tagi sem hér eru haldnar, af mér og ýmsum öðrum. Meðferðin á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar er á ábyrgð þeirra sem hér ráða ríkjum. Meðferðin er slík að það er ekki hægt að ræða um þetta mál öðruvísi en að mönnum svíði. Óheilindin í þessari umræðu frá upphafi --- ég kalla það óheilindi, það er mín tilfinning --- hafa verið með eindæmum.

Menn héldu því fram frá upphafi að þetta væri sameiginleg auðlind þjóðarinnar og einungis um að ræða fyrirkomulag sem þyrfti að hafa til að ná hagræðingu í útgerð og annað slíkt. Aldrei var sagt beinum orðum að menn ætluðu sér að einkavæða auðlindina. Það var aldrei sagt beinum orðum. Enginn hélt því fram að þjóðarauðlind væri auðlind sem einstaklingar úti í bæ ættu að hafa fullt forræði yfir til að kaupa og selja sín á milli. Aldrei var það sagt að það væri hin eiginlega rétta orðskýring á þjóðarauðlind.

[28:00]

Hv. þm. Árni Ragnar Árnason taldi að til væru ýmis dæmi sem væru hliðstæða við þessa meðferð á þjóðarauðlind sem við erum hér að tala um. Hann nefndi landbúnað í því sambandi. Mér varð á að kalla fram í hjá hv. þm. og spyrja hvort það væri búið að setja sauðkindina í þennan bás, hvort búið væri að þjóðnýta hana, gera hana að þjóðarauðlind, hvort kvótinn í landbúnaði ætti að vera sambærilegur við kvótann á Íslandsmiðum. Ég hef aldrei litið þannig á og tel reyndar að það sé fráleitt að láta sér detta í hug að jafna saman annars vegar þessu fyrirbrigði, kvótakerfi í landbúnaði sem ég hef ýmislegt við að athuga, og hins vegar þjóðarauðlindinni á Íslandsmiðum. Það hefur a.m.k. aldrei staðið til svo ég viti að lýsa því yfir að kvóti í landbúnaði eða sauðkindin sem slík eða íslenska kýrin væri gerð að þjóðareign, þó að þær séu báðar þjóðargersemi að mati landbúnaðarráðherrans a.m.k.

Hv. þm. sagði líka í andsvari við mig að hann hefði átt við landið. Þá stend ég enn þá meira á gati vegna þess að ég hef ekki litið þannig á að landið hefði sömu stöðu og sú þjóðarauðlind sem við erum að tala um. Ég tel að bændur sem hafa afnot af landi hafi yfirleitt einhvers konar leigusamning við ríkið ef viðkomandi land er í eigu ríkisins og um það gilda eðlilegar leikreglur. Ég hef sjálfur land á leigu frá ríkinu og borga fyrir það fullt verð og ég hef ekki séð annað en að gæslumenn ríkisins hafi passað upp á að það land væri verðlagt með tilliti til markaðsverðs á leigulöndum í einkaeign. Ég sé ekkert athugavert við það. Mér finnst það bara eðlilegt. En ég sé ekki, hæstv. forseti, að hægt sé að finna neina hliðstæðu í nýtingu á landi og afnotum af fiskstofnum og ég vildi gjarnan fá nánari útskýringar á því ef mér mætti þá auðnast að skilja hlutina betur.

En sú tillaga sem er til umræðu hefur svo sem ekki verið til umræðu frá minni hendi þessar síðustu mínútur. Ég taldi ástæðu til að nefna ýmsa aðra hluti vegna umræðna sem höfðu farið af stað. Mér finnst það ekki óeðlilegt þegar komið er að lokum þessa þings og þessa kjörtímabils og verið er að ræða síðustu sjávarútvegsmálin hér í þinginu að þá sé spurt eftir hlutum eins og þeim sem um hefur verið talað í kvöld. Menn spurðu eftir hæstv. forsrh. Þá langaði að vita hvað dveldi nú orminn langa, hvers vegna hæstv. forsrh. hefði ekki staðið við orðin frá því fyrir ári síðan um að það kæmi frumvarp til umfjöllunar í þinginu þar sem það yrði fest í stjórnarskrá að þjóðin ætti þessa auðlind. Hæstv. forsrh. hafði horfið hér úr húsi og hefur ekki komið síðan aftur þannig að við þessu fengust ekki svör og enginn annar hér á hv. Alþingi, hvorki hv. formaður sjútvn. né aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hæstv. forseti eða aðrir sem um stefnuna vita gerla hjá ríkisstjórninni í þessum efnum, enginn þeirra hefur komið hér upp til þess að skýra það fyrir þjóðinni og þinginu hvernig á því standi að þetta fyrirheit hæstv. forsrh. frá því fyrir ári síðan hafi glatast á leiðinni. En Framsóknarflokkurinn samþykkti tillögu á flokksþingi sínu fyrir fáeinum dögum sem gekk út á það að það væri stefna Framsóknarflokksins að festa þetta ákvæði í stjórnarskránni.

Ég er á þeirri skoðun að slíkt ákvæði í stjórnarskrá geti aldrei orðið eða staðið undir nafni án þess að framkvæmd laganna um stjórn fiskveiða breytist með þeim hætti að allir sem vilja stunda atvinnurekstur í sjávarútvegi búi við jafnræði til þess að fá veiðiheimildir. Slíkt jafnræði verður ekki til í kvótakerfi án þess að það verði leyst með einhvers konar markaðsaðgangi og sá markaðsaðgangur er í sjálfu sér ekkert flókinn. Hann getur orðið til með aðferðum sem eru þekktar, sem kaupmenn þekkja, sem allir sem kynnt hafa sér viðskipti þekkja vel og kunna að fara með. Við höfum lagt fram tillögur okkar um það hvernig á að fara að þessu og ég tel að full ástæða sé til að gera sér bærilega góðar vonir um að umræður um þetta efni verði miklar í aðdraganda kosninganna sem eru fram undan og að þjóðin muni í þetta skipti velta því alvarlega fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að taka átökin um stjórn fiskveiða og meðferðina á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar með í reikninginn þegar fólk tekur ákvörðun um það hvaða flokki það ætlar að ljá atkvæði sitt í kosningunum.

Hæstv. forseti. Ég hef um þetta þokkalegar vonir og þær eru ekki sprottnar af engu. Þær eru sprottnar af því að ég hef fylgst með þessu máli lengi. Ég hef tekið þátt í þessari umræðu lengi. Ég hef lagt krafta mína og pólitísk áhrif, þó ekki hafi verið nógu mikil, í það að vinna í þessu máli. Og ég finn það núna og hef fundið það á þessu kjörtímabili með vaxandi þunga að möguleikarnir til þess að þetta mál hafi áhrif á afstöðu kjósenda í komandi kosningum eru vaxandi. Ég tel að fólk hafi áttað sig prýðilega vel á því að stjórnarflokkarnir sem lofuðu þjóðinni fyrir síðustu kosningar sátt um þessi málefni sviku það svo með eftirminnilegum hætti því svik voru það og ekkert annað. Það er ekki hægt að kalla það neitt annað en svik í þessu máli þegar menn lofuðu fyrir kosningar að beita sér fyrir sáttum um stjórn fiskveiða en breyttu svo sáttinni í sátt milli sín, þ.e. milli foringjanna í stjórnarflokkunum og LÍÚ-forustunnar sem skrifaði upp á samkomulagið í raun. En LÍÚ-forustan er með hundshaus núna vegna þess að hún er auðvitað farin að sjá að það verður enginn friður um þetta og þeir voru að fallast á eitthvað sem var tóm vitleysa.

Það var auðvitað tóm vitleysa að láta sér detta í hug að það yrði einhver sátt um að útgerðarmenn færu að borga veiðigjald sem yrði ákveðið í Stjórnarráðinu hverju sinni og áfram yrði einkaeinokun á því að nýta auðlindina. Slíkt fyrirkomulag er fáheyrt og fáránlegt. Við höfum auðvitað það hlutverk hér á hv. Alþingi að sjá til þess að afkomendur okkar búi við frelsi og jafnræði til að nýta þessa auðlind og það verður ekki með því fyrirkomulagi sem hér ríkir. Þess vegna er ekkert annað að gera en að koma þeirri stjórn frá völdum sem nú hefur haft þau í átta ár á hv. Alþingi og hefur verið að reyna að festa þetta kerfi og eignarhald útgerðarmanna í sessi. Það verður koma henni frá og koma til valda fólki sem er tilbúið til að taka á þessum málum og koma þeim í framtíðarhorf, þó það taki tíma, því ekki viljum við kollvarpa góðum fyrirtækjum í landinu. Það er fjarri mér að fjandskapast við þá sem reka þau fyrirtæki. Mér dettur það ekki í hug. Ég tel að það sé hlutverk okkar að koma á fyrirkomulagi sem þessi fyrirtæki geta lagað sig að. Góðir stjórnendur munu auðvitað standa upp úr og fyrirtæki þeirra munu auðvitað blómstra í því fyrirkomulagi sem við leggjum til að verði tekið upp, því þar verður samkeppnisumhverfið. Það verður fyrst og fremst gengið út frá því að jafnræðis verði gætt þannig að allir sitji við sama borð og geti barist á þeim markaði sem verður, eins og allir verða að gera í samkeppnisþjóðfélaginu okkar. Það er það fyrirkomulag sem við skrifum öll upp á. Engin atvinnugrein á helst að vera öðruvísi en að þar sé hægt að tryggja samkeppnisumhverfi. Þetta er eitt af stóru málum stjórnvalda á þessum árum, þ.e. að reyna að sjá til þess að leikreglurnar séu réttar og að menn sitji við sama borð og hafi jafnræði til þess að keppa á markaði.

Það er alveg sama hvar menn líta yfir sviðið, alls staðar viðurkenna þeir að þessar leikreglur eigi að gilda, nema í sjávarútvegi og landbúnaði. Ekki hefur mönnum nú farnast allt of vel í landbúnaðinum. Þar þurfa þeir nú að líta yfir og skoða hvort ekki væri rétt að endurskoða framsóknar/íhaldsfyrirkomulagið þar (LB: Við tókum um það umræðu í dag.) og um það var nú svolítil umræða já í dag. Hæstv. landbrh. var að reyna að svara fyrir veru sína í ráðuneytinu og ... (LB: Núverandi forseti þingsins var nú eitt sinn landbúnaðarráðherra.) Já, og það er nú bara þannig að hæstv. forseti var landbrh. frá því u.þ.b. 1991 líklega til 1995. Ég man þetta nú ekki nákvæmlega. En fyrstu fjögur árin af 12 ára valdatímabili hæstv. forsrh. var hæstv. forseti landbúnaðarráðherra. Af honum tóku svo við framsóknarmenn hver eftir annan. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn --- og það er svo sem ekkert nýtt --- hafa kynslóð eftir kynslóð tekið hvor við af öðrum við að stjórna landbúnaðarmálunum og halda öllu þar í þessu fína formi og við sitjum uppi með það að fátækasta fólkið í landinu er bændur og að allt er í uppnámi á kjötmarkaði, eintóm vandamál. Hæstv. landbrh. var að basla við það í dag að svara fyrir þessa stöðu í greininni. Hann reyndi nú að bera sig vel, enda er honum það lagið að fara mikinn, fara með himinskautum í ræðum sínum, tala um bændur eins og yfirnáttúrulegar verur, að maður tali nú ekki um íslensku kúna og öll dýrin sem við höfum í okkar landi, fegurð sveitanna og sveitakvennanna. (LB: Og gróðurfarið. Gleymdu ekki því.) Já, allt er fagurt og gróðurinn líka.

[28:15]

Hæstv. landbrh. hefur svo sem verið að reyna. En ekki hefur getan verið mikil. Hann hefur skoðað nýjar búgreinar eins og farið var yfir í dag, krókódílarækt eða a.m.k. strútaeldi og sumir segja að úlfaldar hafi komið við sögu. (Gripið fram í: Norskar kýr.) Og norskar kýr. Hann barðist lengi við þær og hafði sigur. Það mun vera eitt af hans mestu afrekum fyrir utan ferðina til Kína þegar hann var að athuga með strútana. En svona er þetta allt saman. Ég fór yfir það í ræðu minni í dag þegar hæstv. landbrh. fór yfir sögu sína að hann hafði lofað þjóðinni því að tekið yrði myndarlega á móti þjóðhöfðingjum í Leifsstöð í framtíðinni þar sem hann ætlaði að mæta á sínum fáki í litklæðum til þess að heilsa upp á þá sem kæmu að heimsækja landið. Ekki höfum við nú séð þessa fyrstu heimsókn. En vel væri til fundið að hæstv. forseti færi með honum í þá fyrstu móttöku og fengi vakran hest undir sig til þess að taka á móti einhverjum þjóðhöfðingja, því hæstv. landbrh. hefur haft mikinn áhuga einmitt á þessu, þ.e. íslenska hestinum og að kynna hann og hann vill helst gera þetta svona. Hann átti líka tillögu á sínum tíma um íslenska hundinn. Ég man ekki nákvæmlega um hvað hún fjallaði. En hann hefur sem sagt áhuga á (Gripið fram í: Dýrum.) dýrum og sérstaklega þeim dýrum sem hafa verið með Íslendingum frá því að land byggðist en líka á dýrum sem mönnum hefur dottið í hug að flytja til landsins til þess að auka fjölbreytnina í landbúnaði.

Ekki hefur miðað mjög mikið hvað þetta varðar. Hæstv. forseti hefur verið fjarri góðu gamni í því ráðuneyti nú í átta ár og það hefði verið býsna gaman að hlusta á (Gripið fram í: Hann vildi ekki einu sinni flytja inn kalkúnavængi.) mat hans á því hvernig eftirmanni hans hafi nú gengið að koma landbúnaðinum til betra horfs. Hæstv. forseti glímdi við ýmsan vanda í sinni landbúnaðarráðherratíð. Að honum sóttu þar fuglar frá öðrum löndum. Honum tókst að verjast þeim. En ég ætla svo sem ekki að halda áfram að tala um landbúnaðarmál. Hins vegar er ekkert ólíklegt að innan ekki mjög langrar framtíðar verði ráðuneytum landbúnaðar og sjávarútvegs steypt saman í eitt atvinnuvegaráðuneyti ásamt einhverjum fleiri verkefnum og þá gæti þetta átt allt heima saman í einni svona ræðu eins og ég hef verið að fara yfir núna.

Ég ætla ekki að standa hér miklu lengur til þess að tala um þetta þótt ég hafi til þess ágætiskrafta. Hæstv. forseti kom okkur einhvern veginn í skilning um það í dag að okkur bæri að standa okkur vel á þessu kvöldi og nóttu hér í þingsölum. Við höfum svo sem verið að reyna það og reyna að standa í því að vinna að þeim málum sem eru á dagskránni og forseti er sjálfsagt ánægður með framlag okkar í þingsalnum í kvöld. Ég geri ráð fyrir því að hann fari að verða þokkalega ánægður með það. Við eigum auðvitað eftir að fást við fleiri mál hér þannig að ég vil ekki tefja tímann og ætla því að ljúka mínu máli.