2003-03-15 00:16:47# 128. lþ. 102.34 fundur 715. mál: #A tollalög# (landbúnaðarhráefni) frv. 80/2003, Frsm. meiri hluta DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[24:16]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á tollalögum nr. 55/1987, með síðari breytingum, frá meiri hluta landbn.

,,1. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:

a. Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, er verður 9. tölul., sem orðast svo: Af hráefni, efnivörum og hlutum sem bera magntoll (A1-tollur) samkvæmt viðauka I við lög þessi og ætluð eru í innlendar framleiðsluvörur, svo og af umbúðum fyrir slíkar vörur. Ef aðvinnsla sem á sér stað hér á landi er óveruleg, svo sem pökkun, umpökkun, átöppun eða blöndun, telst framleiðsluvara ekki vera innlend í skilningi þessa töluliðar.

b. 2. mgr. orðast svo:

Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um skilyrði niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu tolls samkvæmt þessari grein, að undanskildum 9. tölul. 1. mgr. Landbúnaðarráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um skilyrði niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu skv. 9. tölul. 1. mgr. Gera má að skilyrði lækkunar eða niðurfellingar tolls samkvæmt þessari grein að lögð sé fram fullnægjandi trygging fyrir greiðslu aðflutningsgjalda.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Greinargerð með þessu frv.:

Í frumvarpinu er lagt til að landbúnaðarráðherra verði veitt heimild til þess að fella niður verð- og magntoll af hráefni og efnivörum sem flokkast sem landbúnaðarvörur og bera magntoll (A1) samkvæmt tollskrá. Tekið er fram að sé aðvinnsla sem á sér stað hér á landi óveruleg, svo sem pökkun, umpökkun, átöppun eða blöndun, teljist framleiðsluvara ekki vera innlend og verður tollur samkvæmt því ekki felldur niður af hráefni, efnivöru eða hlutum í framleiðsluvöruna.

Í núgildandi lögum er fjármálaráðherra veitt heimild í 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. til að ákveða með reglugerð skilyrði niðurfellingar á tollum af hráefni, efnivörum og hlutum í innlendar framleiðsluvörur svo framarlega sem ekki er um landbúnaðarhráefni að ræða sem ber magntoll samkvæmt tollskrá. Er því óheimilt að fella niður toll af landbúnaðarhráefni sem nýtur tollverndar á grundvelli innlendrar landbúnaðarstefnu.

Með því að veita landbúnaðarráðherra heimild til að ákveða með reglugerð skilyrði niðurfellingar á tollum af landbúnaðarhráefni sem nýtur tollverndar samkvæmt innlendri landbúnaðarstefnu og ætlað er til framleiðslu á innlendum vörum er innlendum framleiðslufyrirtækjum gert mögulegt að nota erlent landbúnaðarhráefni í innlendar framleiðsluvörur. Er þar um að ræða hráefni sem lýtur reglum um úthlutun tollkvóta, þ.e. vörur sem tilgreindar eru í viðaukum IIIA og B og IVA og B við tollalög. Þar er m.a. um að ræða kjötvörur, mjólkurafurðir, egg og grænmeti. Einnig er um að ræða staðgönguvörur smjörs, svo sem smjörlíki.

Herra forseti. Frumvarp þetta er flutt sérstaklega með það í huga að gera það kleift að flytja hingað til lands hreindýraskrokka frá Grænlandi og fullvinna kjötafurðirnar á Húsavík til útflutnings aftur. Hér er eingöngu um tollamál að ræða.