2003-03-15 00:20:25# 128. lþ. 102.34 fundur 715. mál: #A tollalög# (landbúnaðarhráefni) frv. 80/2003, KHG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[24:20]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er verið að flytja frv. sem er unnið í framhaldi af umræðum sem urðu í hv. landbn. um afgreiðslu á þáltill. sem vísað hafði verið til nefndarinnar og fjallaði um möguleika á að heimila innflutning á hreindýrakjöti frá Grænlandi til vinnslu innan lands og að afurðir yrðu seldar á erlendan markað. Það er út af fyrir sig mjög áhugavert viðfangsefni sem ég held að fullur vilji sé til að skoða eftir því sem föng eru á. Í nefndinni kom fram vilji, a.m.k. af minni hálfu, til að líta á það mál frekar.

Hins vegar er það mál sem hér er komið fram ekki þáltill. um það afmarkaða efni heldur frv. sem fjallar um miklu víðtækara svið en þáltill. byggðist á og umræðurnar voru um. Hér er lagt til að opna nýja heimild í tollalögum fyrir hæstv. landbrh. til að heimila innflutning, ekki bara á hreindýrakjöti heldur almennt á kjöti án takmarkana á magni og fella niður tolla af því. Með þessu móti er verið að opna, eins og frv. er úr garði gert, fyrir innflutning á erlendum, óunnum kjötvörum sem fara til vinnslu hérlendis og síðan er unnt að selja innan lands á markaði í samkeppni við annað kjöt. Hér er bæði um að ræða samkeppnismál og mál sem lýtur að því að huga að öryggi og sjúkdómum við innflutning á kjötvörum. Eins og menn vita eru Íslendingar afar viðkvæmir fyrir slíku.

Ég held að það sé ekki ráðlegt að grípa til svo mikilla breytinga sem felast í þessu frv. öðruvísi en að athuga málið vandlega, kynna það fyrir hagsmunaaðilum og skoða allar hliðar málsins þannig að ljóst sé að ef málið verður samþykkt séum við ekki að stíga nein þau skref sem við teljum síðar meir að kynnu að vera óheillaspor.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til hv. landbn. til skoðunar og athugunar í framhaldi af því eftir að 1. umr. er lokið.