2003-03-15 00:32:00# 128. lþ. 102.34 fundur 715. mál: #A tollalög# (landbúnaðarhráefni) frv. 80/2003, SI
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[24:32]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að hér er eingöngu um heimildarákvæði að ræða og þetta er eingöngu tollamál. Þar sem það kom fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman að þetta hafi verið afmarkað mál til að byrja með, þ.e. þáltill. mín um aukinn tollkvóta. Það þótti ekki ganga upp af því að þá var verið að tolla allt þetta kjötmagn hingað inn til lands og ekki þótti nógu gott að fá það í samkeppni við innlenda kjötframleiðslu. En þarna erum við að huga að því að þetta komi hérna inn til vinnslu til áframhaldandi útflutnings.

Með þessu frv. er verið að veita hæstv. landbrh. sams konar heimild og fjmrh. hefur samkvæmt 6. gr. tollalaga, nr. 55/1987. En í þessari breytingu sem hér er lögð til felst að hæstv. landbrh. fær heimild til að fella niður, lækka eða endurgreiða toll af landbúnaðarhráefni sem nýtur tollverndar.

Í greinargerð með frv. segir, með leyfi forseta:

,,Í núgildandi lögum er fjármálaráðherra veitt heimild í 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. til að ákveða með reglugerð skilyrði niðurfellingar á tollum af hráefni, efnivörum og hlutum í innlendar framleiðsluvörur svo framarlega sem ekki er um landbúnaðarhráefni að ræða sem ber magntoll samkvæmt tollskrá. Er því óheimilt að fella niður toll af landbúnaðarhráefni sem nýtur tollverndar á grundvelli innlendrar landbúnaðarstefnu.``

Síðan er það að sjálfsögðu hæstv. landbrh. að setja nánari skilyrði í reglugerð, m.a. um heilbrigði o.fl.

Herra forseti. Þá er spurningin: Hvað vinnst með því að þetta frv. verði að lögum? Jú, það opnar á að hægt sé að flytja hingað inn góðar landbúnaðarafurðir frá ósýktum svæðum til frekari vinnslu hér á landi og síðan til áframhaldandi útflutnings.

Forsaga þessa máls er sú, eins og fram hefur komið hér, að ég flutti ásamt meðflutningsmönnum fyrr á þessu þingi þáltill. sem gekk út á að auka tollkvóta á hreindýrakjöti, m.a. til að hægt væri að flytja hingað til lands hreindýrakjöt frá Grænlandi og vinna það á Húsavík. En það þótti ekki nógu gott að fara þá leið og því lagði landbrn. og fleiri ráðuneyti til við mig að fara frekar þá leið sem lögð er til hér. Sú leið að auka tollkvótann var ekki talin hentugasta leiðin til að koma til móts við þessa vinnslu og því hefur þetta frv. nú litið dagsins ljós og ég vonast til að það fái skjóta og jákvæða afgreiðslu á hinu háa Alþingi.

Það var sem sagt nefnd þriggja ráðuneyta sem kom að vinnslu þessa máls og mælti með því að þessi leið yrði valin.

Herra forseti. Ég tel að miklir möguleikar liggi hérna ónýttir, þ.e. að flytja inn afurðir frá Grænlandi og vinna hér á landi til áframhaldandi útflutnings, þar sem við höfum hér á landi á að skipa afar færum fagmönnum í matvælaiðnaði og mikla fagþekkingu í greininni. Það tiltekna dæmi sem ég er með í huga varðandi fyrstu skref á þessari braut er að flytja inn óunna hreindýraskrokka í frystigámum frá Grænlandi til Húsavíkur. Framtakssamir einstaklingar þar ásamt Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hafa verið að undirbúa málið. Hér er um að ræða 2.500--2.700 hreindýraskrokka árlega sem að öllum líkindum yrðu unnir í húsnæði Mjólkursamsölunnar á Húsavík, en öll vinnsla á mjólk og mjólkurafurðum var lögð niður á Húsavík og flutt til Akureyrar eins og kunnugt er. Einungis lítill hluti húsnæðis Mjólkursamsölunnar hefur verið í notkun eftir að starfsemin var flutt burt en í gömlu Mjólkusamsölunni er hátt til lofts og vítt til veggja og húsnæðið því talið henta afar vel starfsemi sem þessari.

Á Grænlandi er hreindýrum slátrað við bestu mögulegar aðstæður í sláturhúsi sem hefur fengið ESB-viðurkenningu til útflutnings og um er að ræða ósýkt, stimplað úrvalskjöt sem tilvalið er að flytja inn og fullvinna hér á landi, jafnvel sem lúxusvöru fyrir erlendan markað. Þannig skapast atvinna og virðisaukinn af verðmætasköpuninni við vinnsluna verður eftir hér í landinu.

Herra forseti. Ég vil að lokum ítreka að með þessu frv. er einungis verið að veita hæstv. landbrh. heimild og ráðherra getur síðan með reglugerð kveðið nánar á um skilyrði. Að sjálfsögðu þarf að uppfylla öll innflutningsskilyrði svo sem sjúkdómavarnir, vottun o.fl.