2003-03-15 02:07:40# 128. lþ. 102.20 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[26:07]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við munum greiða atkvæði gegn þessu frv. þar sem við teljum að með því að opna fyrir einkavæðingu hafnanna sé haldið inn á mjög háskalega braut. Samkvæmt 3. tölul. 8. gr. frv. er opnað fyrir þann möguleika.

Það eru vissulega fleiri slæm ákvæði í þessu frv. en spurninguna um einkavæðingu teljum við mesta grundvallaratriðið og þá stefnubreytingu sem í því fælist. Með þessari lagabreytingu, ef samþykkt verður, yrði opnað á að færa hafnirnar, þessa mikilvægu almannaþjónustu, og í raun þennan hluta af samgöngukerfinu í landinu inn í markaðsumhverfi og undir samkeppnislög sem leiða mundu til árekstra þegar fram í sækti og hætt er við því að smátt og smátt mundi þetta verða til þess að brjóta niður þessa þjónustu sem almannaþjónustu og ýta til hliðar félagslegum og byggðapólitískum sjónarmiðum.

Það er óhjákvæmilegt að það komi fram að í burðarliðnum var samkomulag við hæstv. samgrh. um að taka út úr frv. hin umdeildu ákvæði sem heimila einkavæðingu hafna. Samfylkingin féllst ekki á samkomulag um að afgreiðsla málsins yrði með þeim hætti. Við hefðum talið slíka breytingu svo mikilvæga að í stað þess að greiða atkvæði gegn frv. óbreyttu, sem við munum gera, hefðum við setið hjá. Ég harma að ekki reyndist unnt að ná þessu fram.