Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 11:40:43 (53)

2002-10-03 11:40:43# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[11:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það fer vel á því eftir góðærisræðu hæstv. forsrh. í gær að ræða hér hátt matvælaverð á Íslandi. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir á þakkir skildar fyrir að eiga frumkvæði að því að færa þetta mál hingað inn í þingsali.

Ég hygg að það sé staðreynd að hvergi í þeim löndum sem við berum okkur saman við sé matvælaverð og framfærslukostnaður heimilanna eins hár og hér á landi en laun almenns launafólks eins lág. Og það er auðvitað eðlilegt að reynt sé að leita skýringa á því.

Ég tók eftir því að hv. flm. sagði að matvælaverð hefði hækkað langmest á Íslandi á síðastliðnum árum, og hún nefndi á milli áranna 2000 og 2001. Maður veltir fyrir sér hvort skýringa sé ekki m.a. að leita í þeirri samþjöppun og fákeppni sem er að verða æ meira áberandi á matvælamarkaðnum eins og víða í öðrum atvinnugreinum. Því er ástæða til að reka á eftir þeirri úttekt sem verið að vinna á vegum Samkeppnisstofnunar, ef ég man rétt, sem er að skoða fákeppni á matvælamarkaðnum.

Ég vil minna á í þessu sambandi, þegar við ræðum hátt matvælaverð, að það er full ástæða til þess hér á landi eins og gert hefur verið víða í Evrópulöndum, m.a. á Norðurlöndum, að gera ákveðinn neyslustaðal sem skilgreini lágmarksframfærslukostnað eftir fjölskyldugerð miðað við að enginn hafi sér til framfærslu tekjur undir skilgreindum framfærslumörkum. Í því sambandi vil ég minna á að á síðasta þingi, fremur en þinginu þar áður, var samþykkt þáltill. sem ég beitti mér fyrir, ásamt fleiri þingmönnum, um að gerður skyldi slíkur neyslustaðall og man ég ekki betur en að hæstv. forsrh., sem hafði þá framkvæmd með höndum, hafi átt að skila niðurstöðu á því haustþingi sem nú er hafið. Það er ástæða til þess að reka á eftir því.

Ég minni á það sem fram kom um framfærslukostnað heimilanna í tillögunni. Þar var byggt á skýrslu sem gerð var um framfærslukostnað, um áætlanir, bæði sem Hagstofan gerir um áætlaðan framfærslukostnað annars vegar og Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hins vegar, en þar koma fram mjög mismunandi upplýsingar um framfærslukostnað heimilanna. Ég staðnæmist mjög við þá framfærsluþörf sem Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna setur fram en hún setti fram að framfærsluþörf einstaklings væri 63 þús. kr. á mánuði en Hagstofan 96 þús. Þegar skoðaður er lágmarksframfærslukostnaður hjóna með tvö börn segir Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna að framfærslukostnaðurinn sé 140 þús. kr. og Hagstofan rúmlega 242 þús. Það er ástæða til að staðnæmast við þessa tölu, 140 þús. kr., vegna þess að hér er einungis um að ræða framfærslukostnað eða framfærsluþörf sem Ráðgjafarstofan áætlar í stuttan tíma meðan fólk með skuldsett heimili er að koma sér út úr verstu skuldastöðunni. Framfærslukostnaður hér á landi er því mjög hár og allir vita að bara framfærslukostnaður í matvælum, svo ekki sé talað um annað, tekur drjúgan hluta af tekjum heimila sem hafa lítið á milli handanna eða meðaltekjur.

[11:45]

Ég tel fulla ástæðu til að fara í þá könnun sem hér er lögð til. Ekki er langt síðan nokkur verkalýðsfélög gerðu úttekt hjá fólki varðandi fjárhag þess og hvaða breytingar fólk hefði séð á fjárhag sínum á umliðnum árum. Mig minnir að þessi könnun hafi verið gerð í fyrra. Fram kom að 30% aðspurðra töldu að fjárhagsstaða sín væri lakari nú en fyrir nokkrum árum. Ég geri ráð fyrir að þar sé ekki síst um að kenna háu matvælaverði, eins og við erum hér að ræða, miklum húsnæðiskostnaði sem hv. flm. nefndi að hefði aukist verulega á umliðnum árum, sérstaklega hjá lægst launaða fólkinu, og háum vöxtum hér á landi.

Mér fannst, herra forseti, hæstv. forsrh. nokkuð óforskammaður í ræðu sinni í gærkvöldi þegar hann taldi þessari ríkisstjórn til hróss að hún ætlaði að fjölga leiguíbúðum. Hæstv. forsrh. gleymdi að nefna það sem skiptir máli, að vextir á þessum leiguíbúðum eru orðnir óviðráðanlegir, bæði fyrir sveitarfélögin og félagasamtök sem hafa byggt leigu\-íbúðir. Vextir á leiguíbúðum hafa fjór- til fimmfaldast í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það hefur enginn efni á því að leigja slíka íbúð á um 1.000 kr. á fermetra. Láglaunafólk sem er kannski með 90 þús. kr. sér til framfærslu, fer með obbann af tekjum sínum í leigukostnað. Þetta er hrikaleg staðreynd, herra forseti, við hliðina á því háa matvælaverði sem þetta fólk þarf að búa við.

Á umliðnum missirum hefur farið af stað umræðan um hve fátækt er að aukast í þjóðfélaginu. Það er ekki síst vegna þess að hátt matvælaverð bitnar af fullum þunga á þessu fólki. Í nýlegri skoðun sem ég bað um hjá embætti ríkisskattstjóra kemur fram að 11 þús. einstaklingar og fjölskyldur höfðu sér til framfærslu á sl. ári árstekjur á bilinu 782 þús. kr. til 1.100 þús. Í úttekt sem ég hef líka látið skoða kemur fram að fólk með 90 þús. kr. í tekjur á mánuði borgaði einn milljarð í skatt á sl. ári. Það er ekki síst vegna þessa fólks, herra forseti, að ástæða er til að fara að skoða af fullri alvöru það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir leggur til, að kannaðar verði orsakir hás matvælaverðs á Íslandi. Það er að sliga mörg heimilin hér á landi.