Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:43:58 (75)

2002-10-03 12:43:58# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:43]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að sú þróun sem við höfum séð í matvælaverði hér á landi stafi af tvennu, annars vegar því að við njótum ekki sömu kjara og þær þjóðir sem eru innan Evrópusambandsins. Hins vegar er ég líka alfarið þeirrar skoðunar að þróun í smásölu á matvælamarkaði hafi verið mjög óheillavænleg. Ég hef ekki gerst svo djarfur að kalla það beinlínis einokun. Ég hef orðað það svo að ein tiltekin verslunarkeðja hafi núna hreðjatak á smásölu á matvælum. En ég fagna því að hv. þm. Halldór Blöndal, einn af liðsforingjum Sjálfstfl., skuli kveða svo fast að orði.

Ég held að eftir ummæli hv. þm. hljóti að liggja fyrir að samstaða sé um það í þinginu að rannsaka hvernig þróun á smásölumarkaði hefur haft áhrif á verðlag í landinu og það er jú eitt af því sem kemur fram í tillögu okkar þingmanna Samfylkingarinnar. Mér fannst þetta vera alvarlegar ásakanir hjá hv. þm. En ég tel ekki að hér sé um getsakir að ræða.