Framlög til þróunarhjálpar

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:11:56 (266)

2002-10-07 15:11:56# 128. lþ. 5.2 fundur 146#B framlög til þróunarhjálpar# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Um síðustu helgi stóð Rauði kross Íslands fyrir söfnun meðal landsmanna til að afla fjár til að standa straum af neyðaraðstoð til landa í sunnanverðri Afríku þar sem nú er yfirvofandi hungursneyð. Að mati þeirra sem gerst til þekkja þarf alþjóðasamfélagið að gera stórátak ef ekki eiga að verða þar miklar hörmungar á næstu mánuðum. Landsmenn tóku mjög vel við sér og talið er að safnast hafi um 25 millj. kr.

Á hinn bóginn er frammistaða íslenskra stjórnvalda og íslenska ríkisis þegar kemur að því að leggja sitt af mörkum ekki jafnglæsileg. Ísland ver einu lægsta ef ekki allægsta hlutfalli sem þekkist meðal þróaðra ríkja til þróunarsamvinnu og neyðaraðstoðar og sú tala stendur óbreytt milli ára, er um 0,12% af landsframleiðslu og óbreytt í fjárlagafrv. fyrir næsta ár ef ég hef lesið rétt. Ég vil því af þessu tilefni spyrja hæstv. utanrrh. hvort ríkisstjórnin hafi rætt þann möguleika að auka nú þessar fjárveitingar til neyðaraðstoðar og/eða þróunarsamvinnu, t.d. með því að bæta við öðru eins til neyðaraðstoðar í sunnanverðri Afríku á móti því sem Rauði kross Íslands safnaði meðal landsmanna um síðustu helgi. Ég teldi það ekki ofrausn. Satt best að segja er núverandi framlag í litlu samræmi við hinn góða efnahag sem talsmenn ríkisstjórnarinnar guma mjög af þegar það þykir henta. Frammistaða okkar Íslendinga er hörmulega bágborin á þessu sviði ár eftir ár og áform sem menn settu sér fyrir nokkrum árum um að þoka þessu hlutfalli upp á við hafa ekki náð fram að ganga. Það tilefni sem nú gefst til þess að taka sérstaklega á í þessum efnum ætti að nota. Ég bendi á að í hlut eiga m.a. ríki þar sem Ísland hefur reynt að standa fyrir þróunaraðstoð undanfarin ár, eins og Malaví.