Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:16:03 (345)

2002-10-08 16:16:03# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. ,,Við búum við góða heilbrigðisþjónustu og gott fagfólk``, sagði hæstv. ráðherra áðan. Ég tek heils hugar undir það. Svo bætti hann við: ,,Og greiðan aðgang að þjónustunni.`` Það er kannski vandinn. Sums staðar er e.t.v. aðgangurinn of greiður og annars staðar of torveldur.

Þó að við séum hér með góða heilbrigðisþjónustu þá má ýmislegt betur fara. Til dæmis sinnir heilsugæslan ekki því hlutverki sem henni er ætlað í lögum, sérstaklega ekki á höfuðborgarsvæðinu. Hér er löng bið eftir þjónustu og þúsundir eru ekki með heimilislækni. Dýrari þjónustustig, t.d. sérfræðilæknar og bráðasjúkrahús, sinna frumþjónustunni öllum til óhagræðis, sjúklingum, skattgreiðendum og heilbrigðisstarfsfólki.

Sú ríkisstjórn sem nú situr gaf sérfræðilæknisþjónustuna algjörlega frjálsa og með því var byrjað að grafa undan heilsugæslunni. Ég minnist þess að sérfræðingarnir þökkuðu kærlega fyrir sig með stórum blómvendi til síðasta heilbrigðisráðherra. Það fyrirkomulag sem hér tíðkast í sérfræðilæknisþjónustunni tíðkast hvergi, að menn hafi svona greiðan aðgang, ekki einu sinni í Bandaríkjunum. Þarna er nánast opinn krani á ríkissjóð og sérfræðilækniskostnaðurinn hefur þanist út um 134% frá 1997 og heilsugæslunni hefur hnignað. Þetta er gert án þess að það sé nokkuð metið hver þörfin er fyrir sérfræðilæknisþjónustuna eins og menn hafa t.d. gert í Danmörku. Það er ekkert óeðlilegt að heilsugæslulæknarnir vilji komast á sömu kjör og sérfræðingarnir. Þeir verða auðvitað að vera á viðunandi kjörum. Það var hægt að koma slíku á við sjúkrahúsin og það ætti að vera hægt einnig í heilsugæslunni. Menn verða að helga sig hverju þjónustustigi. Það gengur ekki að vera með mismunandi kjör lækna eftir því á hvaða stigi þjónustunnar þeir starfa.

Sérfræðilæknarnir á sjúkrahúsunum, sem eru einnig með rekstur á stofum úti í bæ, eru í óviðunandi stöðu. Þar eru oft alls kyns hagsmunaárekstrar og jafnvel eru þeir í samkeppni við sinn fasta vinnustað. Við getum alveg séð að þetta mundi aldrei tíðkast á hinum almenna markaði. Coca cola mundi t.d. aldrei líða það að lykilstarfsmenn þeirra færu að vinna fyrir Pepsi eftir hádegi eða eftir klukkan fimm á daginn. Það væri aldrei liðið. Ríkisendurskoðun lagði til að þarna yrði skilið á milli og það verður að gera og það hljóta allir að sjá. Verkaskiptingin verður að vera skýr og sjúklingnum þjónað á réttu stigi svo að hann fái sem besta þjónustu. Í dag eru það greiðslukerfin í heilbrigðisþjónustunni og hagsmunir lækna sem stýra verkaskiptingunni. En það er verkefni stjórnvalda að móta stefnuna og ákveða verkaskiptinguna. Undan því mega menn ekki víkjast.