Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 17:01:41 (359)

2002-10-08 17:01:41# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[17:01]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Umræðan um heilbrigðismál snýst oftar en ekki um rekstur og fjárhagslega afkomu heilbrigðisstofnana. Því miður ber sú umræða oft og tíðum keim af einföldunum og alhæfingum. Heilbrigðisstofnanir fá fjárheimildir í fjárlögum. Þeim er ætlað að duga fyrir rekstri viðkomandi stofnana, þetta þekkjum við. Ég fullyrði að stjórnendur stofnana leggja sig almennt fram um að rekstrarútgjöld rúmist innan fjárheimilda.

Stærstu rekstrarliðir tengjast launum starfsmanna. Í þeim efnum hafa stjórnendur lítið svigrúm og eiga ekki svo gott með að hafa stjórn á þeim. Mörg dæmi eru um að þegar ríkisvaldið gerir kjarasamninga við starfsfólk heilbrigðisstofnana fái viðkomandi stofnanir ekki eðlilegar fjárheimildir til að bera uppi afleiddar launabreytingar fyrr en slíkt er leiðrétt í fjáraukalögum eða jafnvel með sérstökum heimildum í fjárlögum næstu ár á eftir, sem þá eru gjarnan undir þeim formerkjum að leiðrétta þurfi halla af rekstri viðkomandi stofnana.

Þá upphefst gjarnan mikil umræða um hallarekstur heilbrigðiskerfisins með alls kyns yfirlýsingum sem jafnvel ganga svo langt að fram koma hugmyndir um að stjórnendur beri ábyrgð á rekstrinum, þeir eigi að sjá til að reksturinn rúmist innan fjárheimilda, að öðrum kosti eigi að skipta um stjórnendur. Slíkur málflutningur hefur m.a. komið fram í umræðum hér á Alþingi. Þetta tel ég vera dæmi um að fjárveitingavaldið, fjmrn. og fagráðuneyti, verði að vinna betur með viðkomandi stofnunum þannig að stjórnendur geti borið eðlilega ábyrgð á rekstri stofnana sinna.

Fyrir nokkrum dögum kom fram í viðtali við formann Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu að ríkisvaldið þurfi að taka upp ný vinnubrögð við ákvörðun fjárheimilda til heilbrigðisstofnana við fjárlagagerð. Það eigi m.a. að fela í sér að meta þurfi og stilla af rekstrargrunn stofnana út frá skilgreindu hlutverki þeirra og ákveða fjárheimildir út frá því, í stað þess að með reglulegu millibili sé farið í að núllstilla rekstrarstöðu stofnana með sérstökum hallaframlögum. Herra forseti. Ég tek undir þessi sjónarmið en legg jafnframt áherslu á að heilbrrn. hefur á undanförnum árum unnið að gerð þjónustusamninga við stofnanir þar sem starfsemi og rekstur eru skilgreind. Þar með hefur ráðuneytið verið að vinna að lausn mála á þessum nótum. Það breytir hins vegar ekki því að launaútgjöld eru sá rekstrarliður sem hefur afgerandi áhrif á rekstrarafkomu heilbrigðisstofnana. Fjárveitingavaldið og stjórnvöld verða að sjá til þess að stofnanir fái eðlilegar fjárheimildir til að standa undir auknum launagjöldum sem leiða af samningum og launaþróun. Fyrr verður ekki hægt að gera kröfur um að stjórnendur heilbrigðisstofnana beri eðlilega ábyrgð á rekstrarafkomu þeirra.