Samkeppnislög

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 13:47:55 (381)

2002-10-09 13:47:55# 128. lþ. 7.95 fundur 162#B samkeppnislög# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[13:47]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að hv. 1. þm. Norðurl. e. óskaði eftir viðbrögðum frá mér. Ég hélt að hann væri fyrst og fremst að tala við stofnun úti í bæ.

En fyrst svo er get ég sagt að ég las það sem fram kom í dag í blöðum, haft eftir Guðmundi Sigurðssyni, og það sem hann er fyrst og fremst að koma á framfæri er að þegar fákeppnin fyrst og fremst varð til hér á Íslandi giltu önnur lög í landinu. Þá var nýfallinn dómur sem varðaði Flugfélag Íslands og Flugfélag Norðurlands sem gerði það að verkum að samkeppnisyfirvöld höfðu ekki aðkomu að því máli sem er það að Baugur kaupir verslunarkeðju. Baugur hafði áður markaðsráðandi stöðu og því var það ekki tilefni til inngripa af hálfu Samkeppnisstofnunar að við bættist annað flugfélag þannig að þessi markaðsráðandi staða yrði enn alvarlegri. En ástæða þess að þarna er ekki gripið inn í er sú að það var nýfallinn dómur. Þetta þekkir hv. þm. ákaflega vel vegna þess að ég trúi að hann hafi gegnt embætti samgrh. á þeim tíma þannig að hér eru nú einhverjir útúrsnúningar á ferðinni.

En hvað varðar það að ástandið hafi batnað á markaðnum, eins og Guðmundur Sigurðsson segir, þá hef ég ekkert frekari upplýsingar um það en hv. þm. sem les blöðin. Og ég trúi því og vona að satt sé og ég held að við getum þá öll glaðst yfir því.