Alþjóðahvalveiðiráðið, Evrópuár öryrkja, rjúpnaveiðitíminn

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 15:06:24 (483)

2002-10-14 15:06:24# 128. lþ. 9.91 fundur 170#B Alþjóðahvalveiðiráðið, Evrópuár öryrkja, rjúpnaveiðitíminn# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[15:06]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi vekja athygli þingheims á að á morgun, hinn 15. október, hefst rjúpnaveiðitíminn. Á Alþingi var til meðferðar fyrir skömmu tillaga um að breyta rjúpnaveiðitímanum og stytta hann vegna m.a. ástands rjúpnastofnsins, en því miður hefur sú tillaga ekki fengið afgreiðslu, alla vega næst það ekki í tæka tíð fyrir morgundaginn.

Ég vil beina því til hæstv. umhvrh. hvort ráðherrann hafi í hyggju einhverjar takmarkandi aðgerðir til þess að stýra veiðum og stemma stigu við ofveiði.

Í öðru lagi er staðan nú sú að hálendið allt er snjólaust og ófreðið og óvíst er um ástand vega og slóða vítt og breitt um hálendið. Auk þess hefur reynslan verið sú þegar rjúpnaveiðitíminn hefst að þá fer af stað fjöldinn allur á ökutækjum, bílum og fjórhjólum og ekur ekki einungis ákveðnar götur og götuslóða heldur líka utan vega. Bæði er landið mjög viðkvæmt núna og einnig stendur mjög skýrt í lögum um náttúruvernd:

,,Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin.``

Hyggst hæstv. umhvrh. sem fer með vörslu og eftirlit með náttúru landsins beita sér fyrir því að stemma stigu við óleyfilegum akstri og fyrir takmörkun á akstri um heiðalönd í rjúpnaveiðiskyni?

Herra forseti. Sú var tíðin að heimilt var að ganga til rjúpna. Það er töluvert annað en að aka og skrölta á öllum mögulegum véltækjum til rjúpna.