Samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 13:40:48 (526)

2002-10-15 13:40:48# 128. lþ. 10.94 fundur 174#B samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[13:40]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Mér finnst ástæða fyrir Alþingi að hafa áhyggjur af því hve mikil fjarlægð virðist vera orðin milli fólksins í landinu og sjávarútvegsins, þeirrar atvinnugreinar sem löngum var kjölfesta byggðar og afkomu. Mér finnst ástæða til að hugleiða afleiðingar þess að aðstæðurnar hafa allt of víða einungis skapað fólki erfiðleika, eignaleysi og vonleysi. Það er ástæða til að staldra við, skoða hlut löggjafans í þessari niðurstöðu og á hvaða vegferð við erum. Er allt sem sýnist?

Rökin fyrir því að þak þurfi að vera á því hve einstakir aðilar geta verið handhafar að stórum hluta kvótans komu fram strax 1998 þegar lögin um hámark voru sett. Vegna þeirrar einokunar sem felst í kerfinu sjálfu þurfa að vera stífari reglur en annars staðar í atvinnulífinu. Að leyfa aukna samþjöppun í sjávarútvegi við að öðru leyti óbreytt kerfi er ávísun á meiri einokun. Þetta hefur sem sagt ekkert að gera með frelsi heldur fákeppni og aukin einokun leiðir hvorki til hagræðingar í fræðunum né í veruleikanum, nema þá þeirrar prívathagræðingar sem í skjóli skattalaga, sem ekki hefur fengist breytt, birtist forréttindahópum í erlendum bankareikningum og eignarhaldsfélögum.

Einokun já. Nýir aðilar geta ekki sannað sig í útgerð nema kaupa til þess réttinn af hinum sem fyrir eru og með aukinni samþjöppun og einokun sækir að efi um að hinir hæfustu séu á hverjum tíma að nýta auðlindina. Eru þau fyrirtæki sem umsvifamest eru í kaupum og skiptum á hlutabréfum að sýna bestu afkomuna? Sú staðreynd að félög úr öðrum geirum atvinnulífsins koma inn í hlutabréfaskiptin setur líka ýmislegt í nýtt og skarpara ljós. Ókeypis úthlutun veiðiréttar hefur verið varin með veiðireynslu viðkomandi.

En hvar er t.d. veiðireynsla Eimskipafélagsins? Hvar sannaði það félag getu sína og hæfni til útgerðar sem gerði það einboðið að það fengi afhentan veiðirétt á Íslandsmiðum? Er mönnum ekkert að fatast flugið við rökstuðninginn?

Herra forseti. Það hefur áhrif um allt land þegar stór eigendaskipti verða í sjávarútvegsfyrirtækjum. Það rifjar upp söguna og setur ugg í brjóst margra og hagræðing er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann, orkar enda tvímælis því að þegar fyrirtækin sýna ekki nauðsynlega afkomu til að vera girnilegur fjárfestingarkostur er efnahagurinn einfaldlega stækkaður með skiptum á hlutabréfum. Þannig reyna forustumenn í sjávarútvegi að hafa bréfin á hreyfingu. Þetta hefur þó til lengri tíma ekki skapað meiri viðskipti eða aukið tiltrú á fyrirtækjunum sem kosti fyrir fjárfesta. En af því meint hagræðing er jafnan notuð sem réttlæting samruna í sjávarútvegi þá spyr ég hvort hæstv. sjútvrh. sé tilbúinn að beita sér fyrir því að fram fari greining á því hvaða hagræðing hafi raunverulega átt sér stað og hvar, þannig að fyrirtækin, fjárfestar og fólkið í landinu hefði a.m.k. rökin á hreinu og myndina skýra og það áður en lengra er haldið, herra forseti. Eða hver er hinn raunverulegi vilji ríkisstjórnarinnar? Það kom fram ákveðinn vilji sl. vor þegar hún stóð að frv. sem reyndist m.a. innihalda tillögur um mikla hækkun á kvótaþakinu í einstaka tegundum úr 20% upp í 50% svo dæmi sé tekið. Þá fór ekki fram nauðsynlegur rökstuðningur né þær umræður sem eru nauðsynlegar nema þá af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni og er skemmst frá því að segja að tillögurnar voru að hluta sendar til baka en urðu að hluta að lögum, lögum sem eru m.a. forsenda nýjustu hlutabréfaskiptanna. Breytingarnar í vor höfðu sem sagt áhrif. Kvótaþakið var ekki varið. Þess vegna, herra forseti, er nauðsynlegt að þessi umræða fari fram hér með skipulegum hætti núna þegar menn sjá að allt er á fullri ferð svo mönnum megi vera ljós vilji hins háa Alþingis og stefna stjórnvalda.