Lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 16:07:41 (639)

2002-10-16 16:07:41# 128. lþ. 12.13 fundur 93. mál: #A lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[16:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. í upphafi fyrir að endurnýja fyrirspurn sína frá því í fyrra og minna okkur öll á þetta mál, því málið er þannig vaxið að þrátt fyrir yfirlýsingu mína um að ég mundi beita mér fyrir því að skýrslan yrði kynnt á Alþingi strax í fyrra eða á fyrra þingi þá fórst það fyrir og mér þykir það leitt. En hér er hún komin, skýrslan. Ég held á henni hér í höndunum og það stendur til að útbýta henni hér í dag eða á morgun. Leyndardómnum hefur því verið svipt af þessu máli og sú vinna sem beðið var um af hálfu þingsins varðandi þetta mál hefur verið innt af hendi í sérstökum starfshópi sem skilaði reyndar þessari skýrslu fyrir allnokkru síðan. En það fórst fyrir að búa hana þannig úr garði að henni væri útbýtt hér fyrir þinginu. Og það, eins og ég segi, þykir mér leitt.

En hér er svarað ýmsum spurningum varðandi þetta mál. Auðvitað eru hér alls kyns álitaefni sem ekki er hægt að meta til fulls á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja, en við teljum að lækkun á endurgreiðslurnar hafi aukið tekjur ríkissjóðs eins og vonast var til. Það er ein af niðurstöðunum. Við teljum erfitt að segja til um það hvort svört atvinnustarfsemi hafi aukist á þessu sviði og þá hversu mikið. Við teljum að það liggi ekki alveg fyrir efni til að draga skýra ályktun um það atriði. Við teljum í þessari skýrslu ekki ástæðu til þess að hækka endurgreiðsluhlutfallið á nýjan leik. En hópurinn bendir á að það er auðvitað pólitísk ákvörðun en ekki verkefni hópsins að gera tillögu í því efni. Ég held að ég geti sagt fyrir sjálfan mig eftir að hafa lesið þessa skýrslu að það er ekkert í henni sem sérstaklega rökstyður að rétt sé að hækka hlutfallið að nýju.

Síðan vil ég benda á að í kjölfar skýrslu sem gerð var á virðisaukaskattskerfinu og framkvæmd þess fyrir u.þ.b. tveimur árum eða tveimur og hálfu ári, var gerð tillaga um bætt aðgengi fólks að þeim endurgreiðslum sem við erum hér að tala um. Þeim tillögum var hrundið í framkvæmd með lagabreytingum og breytingum á reglugerð til þess að stytta afgreiðslutíma manna vegna beiðna um endurgreiðslur virðisaukaskatts Það hefur því verið unnið í því að gera þetta kerfi liprara og auðveldara fyrir almenning að hagnýta sér það.

Þar með tel ég, herra forseti, að fyrirspurninni sé svarað.