Neysluvatn

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 11:01:24 (649)

2002-10-17 11:01:24# 128. lþ. 13.3 fundur 13. mál: #A neysluvatn# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[11:01]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins blanda mér í umræðuna til að taka undir mikilvægi þessarar þáltill. Ég tel einsýnt að vatn verði skilgreint sem auðlind. Við Íslendingar erum vanir því að vatn sé drykkjarhæft nánast hvar sem við förum um landið. Ferðamaður getur svalað þorsta sínum nánast í hvaða læk eða lind sem hann kemur að hvar sem er á landinu. Þannig er ekki víða í heiminum.

Víða erlendis er vatn á svipuðu verði og ódýrustu gosdrykkir sem segir nokkuð um verðmæti vatnsins. Það fer eftir því hvar maður er staddur í heiminum hvernig það er verðlagt. Mér er það minnisstætt að á þingi Alþjóðaþingmannasambandsins í Kóreu fyrir nokkrum árum heyrði ég fyrst mjög alvarlega umræðu um þessi mál og það voru Sádi-Arabar sem vöktu athygli á því hversu óhugnanleg staða væri fram undan í heiminum. Þeir lýstu stöðunni þannig að stríðsátök vegna vatnsskorts gætu verið fram undan og væru í sumum tilvikum hafin. Þegar þessi orð voru flutt hafði ég ekki gert mér grein fyrir því að málin gætu verið þannig að þegar væri komið til stríðsátaka vegna vatns.

Herra forseti. Í mínum huga er vatn auðlind. Ég tel að það sé aðeins spurning um tíma hvenær við Íslendingar hefjum útflutning vatns í alvöru. Það hefur verið reynt og kom fram í máli hv. þm. Katrínar Fjeldsted að margir aðilar hafa reynt fyrir sér, en það er kannski ekki von að vel til takist því að það eru mjög stórir aðilar sem er við að keppa jafnvel þó að við séum með mjög gott vatn sem er nánast hægt að pakka í umbúðir ómeðhöndlað.

Ég tel að það komi mjög til greina að skoða þá möguleika að fara í vöruskipti á vatni og olíu. Ég tel að það sé mögulegur kostur einmitt með vísan til þeirra þjóða sem ég nefndi áðan, Sádi-Araba, og þetta ætti að geta orðið okkur mjög hagstæður kostur ef vel tekst til. Ég hugsa að menn hafi ekki enn þá skoðað nægilega vel hvaða möguleikar gefast með nýtingu risatankskipa sem til eru í heiminum og þau gætu komið inn í slíka mynd innan skamms tíma. Vatn ætti að geta orðið veruleg undirstaða tekna Íslendinga vegna útflutnings innan fárra ára.

Eins og ég sagði í upphafi, virðulegi forseti, stend ég upp til þess að taka undir og hvetja til afgreiðslu á þessari þáltill. þar sem ég tel hvað mikilvægast að neysluvatn verði í raun skilgreint sem auðlind í lögum. Það er það mikilvægasta. Hvar umsýslunni verði fundinn staður í stjórnsýslunni skiptir ekki mjög miklu máli í mínum huga en það skiptir auðvitað máli. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því eins og ég nefndi að íslenska vatnið er auðlind sem við eigum að virða rétt eins og loftið í kringum okkur og aðrar auðlindir sem í kringum okkur eru.

Herra forseti. Ég styð þessa tillögu einlæglega og vona að hún fái framgang.