Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 16:05:12 (709)

2002-10-17 16:05:12# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[16:05]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka 1. flm., hv. þm. Kristjáni L. Möller, fyrir að flytja þetta mál inn í sali Alþingis og sérstaklega á þann hátt sem hann hefur gert hér, í mjög vönduðu formi og safnað saman miklum gögnum og dregið mjög skýrt fram hvaða mismunur er á aðstöðu og búsetu fólks á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar.

Herra forseti. Þeir sem búið hafa á landsbyggðinni, eins og sá sem hér stendur, hafa auðvitað fundið fyrir þessu í gegnum árin og skynjað það að mörg varan og mörg þjónustan, sem þurft hefur að flytja út á landsbyggðina, hefur verið miklum mun dýrari heldur en ef sams konar vara og þjónusta hefði verið keypt á höfuðborgarsvæðinu. Þetta vita allir landsbyggðarbúar. En það er annað að vita þetta, hafa þetta á tilfinningunni, sjá einstök dæmi, reka augun í einstök tilfelli, en að koma að því og ræða málið og setja það í þann búning sem hv. þm. hefur gert. Ég vil enn á ný þakka honum alveg sérstaklega fyrir hvernig það er reifað og sett upp og hvet fólk sem hefur sérstakan áhuga á að kynna sér þá stöðu sem hér er gerð grein fyrir, mismunandi stöðu milli landsbyggðafólks annars vegar og höfuðborgarsvæðis hins vegar, að kynna sér málið. Ég er alveg sannfærður um að flestallir Íslendingar hafa það mikla réttlætiskennd og samviskusemi til að bera, og það á jafnt við fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu og þá sem búa úti á landsbyggðinni, að ég held að fólk geti ekki mælt með eða sætt sig við það ástand sem hér er dregið upp.

Það er sláandi að ræða þessi mál á þennan hátt þegar þetta er svona skipulega dregið fram. Þó að maður hafi vissulega séð ýmis dæmi sem hníga í þá átt sem hér er sett upp í töflum og á skilmerkilegan hátt og hafi stundum nefnt þau hér í umræðunni, m.a. eins og verð á hveitikílói í Bónus á Ísafirði upp á 75 kr. og kíló af sams konar hveiti vestur á Patreksfirði upp á 150 kr. svo dæmi séu tekin. En það er auðvitað eins og kemur fram að hinar stærri verslunarkeðjur hafa talið eðlilegt að reyna að halda nokkuð jöfnu verði úti um landsbyggðina miðað við það sem þær hafa verið að bjóða upp á hér á höfuðborgarsvæðinu og á það við, held ég, megnið af stærri verslunarkeðjunum eins og Bónus, Hagkaup, Nettó og Samkaup, svo einhver dæmi séu nefnd.

Þetta byggist einnig á því að það er, hygg ég, ekki þannig eins og reyndar kom skýrt fram í máli hv. flm. að smásöluverslunin úti á landi, þ.e. kaupmenn sem reka þar verslanir, hafi sérstakan áhuga á að halda vöruverðinu í þeim hæðum sem þar má finna dæmi um, heldur er það vegna þess að þeir hafa bæði mun lakari innkaupakjör hjá heildsölunum og svo, eins og hér er greinilega rakið, bætist flutningskostnaðurinn ofan á og þegar menn panta lítið magn af vöru, þá fá þeir ekki bestu viðskiptakjör. Að öllu samanlögðu verður þetta til þess að minni verslanir eiga undir högg að sækja og það dregur úr verslun jafnvel í þorpum þar sem er kannski aðeins ein verslun og íbúarnir leggja það á sig að fara í löng ferðalög til að gera verslunarinnkaup í stórum stíl. Allt vegur þetta auðvitað að smásöluverslun á landsbyggðinni. Það eru hins vegar alveg eðlileg viðbrögð fólks að leita eftir hagkvæmasta vöruverði hverju sinni.

Ég lýsi því yfir fyrir hönd okkar í Frjálslynda flokknum að við styðjum þetta mál heils hugar og teljum að hér sé mjög gott mál reifað, skilmerkilega og vel fram sett. Það er vissulega fjöldamargt sem hægt er að ræða í sambandi við það sem kemur fram í upplýsingunum, bæði um samanburð á vöruverði og samanburð á flutningskostnaði og síðast en ekki síst hvernig virðisaukaskatturinn kemur svo ofan á allt saman og skekkir myndina enn þá meira en ella væri.

Það er sláandi þegar bornir eru saman þeir vöruflokkar sem hér eru teknir saman í töflu 3 á bls. 4 í tillögunni, þá kemur fram að landsbyggðarfólkið er að borga 58% hærri virðisaukaskatt en höfuðborgarbúar af sams konar innkaupum. Það er gjörsamlega ólíðandi að búa við það til framtíðar.

Þá getum við kannski vikið að öðru sem stundum hefur borið við í umræðum í sölum Alþingis, og um það hafa landshlutasamtök verið að álykta á undanförnum árum, að það mætti með ýmsu móti byggja undir það að fólk á landsbyggðinni byggi við jafnari stöðu í samanburði við höfuðborgarbúa m.a. í gegnum skattkerfið. Hvaða undirtektir hefur það fengið, m.a. hjá stjórnarliðum, þegar menn hafa nefnt að jafna mætti búsetuskilyrði fólks í gegnum skattkerfið? Um þetta hafa komið ályktanir frá fjórðungssamböndum, m.a. frá Fjórðungssambandi Norðurl. v. og ég hygg frá Vestfjörðum og vafalaust fleirum þótt ég hafi ekki séð það. Þá hefur þess gætt hér í umræðunni að þegar það hefur verið nefnt að e.t.v. mætti skoða skattkerfið í þessu sambandi, og þá jafnt virðisaukaskattkerfið sem staðgreiðslukerfið, þá hafa menn ævinlega lagst gegn því, jafnvel þeir menn sem hafa talið sig vera að tala fyrir hönd landsbyggðarinnar. Þeir hafa lagst sérstaklega gegn því að nota mætti skattkerfið í þeim tilgangi þó að hér sé skilmerkilega leitt fram í samantekt hv. þm. að einmitt virðisaukaskattkerfið mismunar mönnum alveg herfilega í þessu tilviki og að landsbyggðarfólk greiðir í raun og veru mun hærri virðisaukaskatt til ríkisins en þeir sem búa á hinu stóra höfuðborgarsvæði af sams konar vörusamsetningu eins og hér er skilmerkilega leitt fram í töflu 3.

Sem betur fer höfum við í einstökum vöruflokkum enn þá nokkurn veginn sama verð úti um landið og hér í Reykjavík. Við höfum t.d. nokkurn veginn sama olíu- og bensínverð, sementsverð, blöð, mjólk og símagjöld en þá hygg ég líka að það sé að mestu leyti upp talið. Öll önnur vara og þjónusta er mun dýrari á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ástand sem verður að laga og þess vegna tökum við heils hugar undir þá þáltill. sem hér er flutt.