Reglugerð um landlæknisembættið

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:34:14 (777)

2002-10-30 14:34:14# 128. lþ. 18.3 fundur 125. mál: #A reglugerð um landlæknisembættið# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það hefur sífellt færst í aukana á undanförnum árum að ráðherra fái víðtækar heimildir til þess að setja reglugerðir. Reyndar verður æ algengara að sett sé rammalöggjöf en útfærsla á einstökum greinum sé meira og minna í höndum ráðherra. Þetta er út af fyrir sig í lagi ef viðkomandi ráðherrar standa á hverjum tíma við að setja slíkar reglugerðir, meðan unnið er eftir þeim og þær eðlilega kynntar. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að slíkar reglugerðir, þar sem um víðtækar heimildir er að ræða, ættu að koma fyrir þingnefnd í viðkomandi málaflokki.

Þegar maður skoðar reglugerðir aftur í tímann og þær reglugerðir sem gilda í dag virðist í fyrsta lagi sem misbrestur sé á að reglugerðir séu settar, í öðru lagi að reynt sé að fylgja því eftir að eftir viðkomandi reglugerð sé farið og í þriðja lagi að reglugerðir séu endurnýjaðar reglubundið þannig og þær séu uppfærðar í takt við þau lög sem eru í gildi hverju sinni.

Þannig var að árið 1973 voru sett lög um heilbrigðisþjónustu, sem eru grunnurinn að löggjöfinni sem við byggjum á í dag. Þau lög hafa þó tekið miklum breytingum og verið endurskoðuð reglulega, m.a. hefur hlutverk heilsugæslustöðva breyst. Farið hefur verið í endurskoðun á hlutverki landlæknisembættisins og því hver á að gera hvað og hverju sinni. Mér finnist þó alls ekki nóg vel að því staðið að skilgreina skýrlega hver skuli sinna hverju á hverju sviði heilbrigðisstéttarinnar.

Hluti af því vandamáli er kannski það að gildandi reglugerðir hafa ekki verið í takt við heilbrigðislöggjöfina. Hér er t.d. reglugerð sem gildir um landlækni og landlæknisembættið. Hún er í gildi í dag. Hún er undirrituð 28. desember 1973 og átti að taka gildi 1. janúar 1974. Hún er byggð á þeim lögum sem sett voru um heilbrigðisþjónustuna 1973. Þetta er náttúrlega með ólíkindum. Margt í þessari reglugerð getur alls ekki gilt í dag, t.d. að landlæknir skuli vera formaður stjórnar Hjúkrunarskóla Íslands, landlæknir sé til ráðuneytis um hvernig best og öruggast verði séð um að læknar komist frá heilsugæslustöðvum til móttökustaðar innan starfssvæðis og svo um almennt sjúkraflug og neyðarþjónustu. Hann á að vera formaður manneldisráðs og læknaráðs og sóttvarnasjóður á að vera í vörslu landlæknis. Landlæknir skal fjalla um veitingu lána og styrkja til heilbrigðisstétta og heilbrigðisstofnana eftir þeim lögum og reglugerðum sem þar um gilda á hverjum tíma. Ég spyr hæstv. ráðherra:

Telur ráðherra tímabært að endurskoða reglugerð frá 28. desember 1973, um landlækni og landlæknisembættið? Ef svo er, hvenær má vænta nýrrar reglugerðar?