Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 16:39:45 (871)

2002-10-31 16:39:45# 128. lþ. 19.9 fundur 26. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[16:39]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum. Flm. eru hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson og Sverrir Hermannsson.

Ég þarf ekki að hafa langt mál um þetta frv. vegna þess að ég tel, eins og hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á hér á undan, að þetta sé hið þarfasta mál. Ég þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir að koma fram með það. Ég tel að þetta sé mikið réttinda- og hagsbótamál, sérstaklega fyrir fólk í sveitum þar sem landbúnaður hefur dregist mjög saman og annar aðili á búi hefur kannski vílað fyrir sér að fara til vinnu annars staðar vegna kostnaðar ef um langan veg er að fara. Ég held að þetta mundi tvímælalaust styrkja stöðu dreifbýlisins.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom réttilega inn á að þeir sem stofnað hafa einkahlutafélög eða starfa hjá hlutafélögum hafa möguleika á því að afskrifa svona ferðakostnað í ríkum mæli. Ég tel því að þetta frv. mundi gagnast einstaklingum eins og hv. þm. kom inn á í framsögu sinni og þess vegna held ég að þetta sé hið besta mál. Við vitum að fólk getur staðið frammi fyrir því tímabundið, eins og komið hefur fram, að eiga kost á góðri vinnu fjarri heimabyggð en þó ekki lengra en svo að hugsanlegt væri að keyra á milli staða. Ég þekki þess mörg dæmi að menn hafa heykst á því að taka slíkum vinnutilboðum vegna kostnaðar við akstur. Ég tel að slík breyting gæti bætt þar gríðarlega úr.

Ég vil koma því að í sambandi við þetta mál að ég tel að það sé angi af grunnhugsun sem ég setti fram í þáltill. um eflingu almenningssamgangna í landinu. Þar benti ég á að almenningssamgöngur eru byggðar á úreltu gömlu sérleyfiskerfi sem engan veginn þjónar nútímasamfélagi. Ég hef lagt fram þáltill. um almenningssamgöngukerfi Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslna sem ég tel að væri mjög til bóta. Það er einmitt grunnhugsun þeirrar tillögu, nákvæmlega eins og hér er sett fram, að möguleikar fólks í dreifbýli sé efldir til þess að færa sig á milli og notfæra sér þau tækifæri sem bjóðast í atvinnuþátttöku. Þess vegna tel ég að þetta frv. til laga sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson flytur hér sé allrar athygli vert. Við munum styðja það í nefnd og vinna að framgangi þess.