Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:26:01 (959)

2002-11-01 15:26:01# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:26]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Engu að síður gefa þessi svör einmitt tilefni til þess að menn fari að velta því fyrir sér hvar þeir eigi að skrá bátinn sinn. Á ég að skrá bátinn minn á Þingeyri eða á ég að skrá hann á Flateyri eða Suðureyri? Hvernig er kvótastaðan einmitt á þessum tíma? Hvernig verður hún eftir þrjá mánuði? Og þá vakna spurningar: Hvenær á að úthluta kvótanum? Verður það gert fyrir kosningarnar eða eftir kosningarnar eða hvenær? Þeir sem eru í þessari útgerð eru farnir að spekúlera í því hvar þeir eigi að skrá bátana sína í þeirri von að þeir fái kannski kvóta. (Gripið fram í.)

En það er alveg ljóst að fólki svíður hvernig þessi úthlutun varð því það borgar útsvar í sama sjóð, lifir og hrærist í sama byggðarlagi, vinnur hlið við hlið og veiðir hlið við hlið. Og svo allt í einu gerist þetta. Ég held að það verði að taka tillit til þess í þessu öllu saman.