Fjölgun fjárnáma og gjaldþrota

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:09:15 (980)

2002-11-04 15:09:15# 128. lþ. 21.1 fundur 205#B fjölgun fjárnáma og gjaldþrota# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna þessa síðasta sem hv. þm. nefndi hygg ég að bankarnir til að mynda og aðrar lánastofnanir fari miklu varlegar en áður var í að krefjast ábyrgðar utanaðkomandi aðila gagnvart lántökum af þessu tagi sem stundum hafa ekki verið gerðar af mikilli fyrirhyggju og hafa lent síðan á mönnum sem af góðu einu, skyldleika kannski, hafa skrifað undir slíkar skuldbindingar. Ég hygg að bankarnir nú orðið fari miklu varlegar og að reglur séu til sem miði að því að slíkum ábyrgðarmönnum sé kynnt sú ábyrgð sem þeir eru að taka á sig hverju sinni. Það er ekki eins auðvelt eins og sumir vilja vera láta þegar verið er að fá fólk til að samþykkja slíkar ábyrgðir.