Tilskipun um innri markað raforku

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:03:02 (1126)

2002-11-06 15:03:02# 128. lþ. 24.5 fundur 90. mál: #A tilskipun um innri markað raforku# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:03]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það má alveg tala um vandræðagang en raunin er sú, eins og allir vita, að þessi tilskipun hefur ekki verið innleidd. Það átti að vera búið í sumar. Ég held að mikilvægt sé að hv. þingmenn átti sig á aðalatriði málsins, þ.e. að það er ekki hægt að fá undanþágu frá þessari tilskipun hvað varðar vinnsluna. Við höfum samþykkt það á hv. Alþingi að tilskipunin sé hluti af EES-samningnum. Ísland fékk það hins vegar viðurkennt að vera einangrað ríki og fá stöðu eins og Lúxemborg. Ísland þyrfti hins vegar að sýna fram á að það væri verulegum vandkvæðum bundið að innleiða tilskipunina ef það ætti að vera einhver möguleiki á að fá undanþágu frá einhverjum hluta tilskipunarinnar.

Orkustofnun hefur gefið svar um að það sé ekki verulegum vandkvæðum bundið að innleiða þessa tilskipun. Ég er algerlega sammála því. Hv. þm. hafa bara ekki kynnt sér málið nægilega vel ef þeir halda öðru fram. Með því að innleiða þessa tilskipun erum við að tala um gegnsætt kerfi. Hver veit í dag hvernig raforkuverð verður til? Það veit ekki nokkur maður. Með því að innleiða þessa tilskipun erum við að búa til gegnsætt kerfi þar sem neytandinn veit meira um hvernig rafmagnsverð verður til. Það skiptir kannski ekki litlu máli.

Það er ekkert launungarmál að ýmsir hafa beitt sér gegn þessu máli hér á hv. Alþingi og einnig fyrirtæki í þjóðfélaginu. Ég tel að þar á bak við séu ýmsar ástæður en engu að síður lifi ég í þeirri von að það styttist í, eins og ég hef stundum sagt áður, að frv. líti dagsins ljós öllum Íslendingum til hagsbóta.