Norðlingaölduveita og Þjórsárver

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 10:33:53 (1158)

2002-11-07 10:33:53# 128. lþ. 25.91 fundur 229#B Norðlingaölduveita og Þjórsárver# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[10:33]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka fram að það er framkvæmdaraðilinn sem ber ábyrgð á matsskýrslunni og lætur vinna hana. Þau gögn og rannsóknaskýrslur sem liggja fyrir þegar skýrslan er unnin skipta tugum. Í skýrsluni sem slíkri kemst því ekki allt að. Hún er í raun lauslegur útdráttur niðurstaðna rannsókna. Vísindamenn er unnu að rannsóknum höfðu tækifæri til að koma að gerð matsáætlana áður en skýrslan var unnin. Síðan þarf Skipulagsstofnun, eins og hv. þingmenn vita, að samþykkja matsáætlun til þess að hægt sé að fara út í vinnu skýrslunnar sem slíkrar.

Við vinnu að matsskýrslu fá þeir sem unnu að rannsóknum tækifæri til þess að koma að athugasemdum um texta sinn með því að lesa yfir drög að þeim kröfum er þá varða og nánast í öllum tilvikum hefur verið farið eftir þeim ábendingum sem þeir hafa komið með.

Svo vil ég einnig nefna það að ekki er allt ferlið búið þó að við séum komin að þeim punkti í ferlinu sem raun ber vitni, því síðan er hægt að koma athugasemdum að við Skipulagsstofnun og síðasti þátturinn er hugsanlega kæruferli.

Ég vil segja að síðustu að auðvitað hafa komið upp athugasemdir og ég hef orðið vör við það þó ég hafi ekki kynnt mér þetta í þaula. En er ekki líka hugsanlegt að vísindamenn sem eru yfirlýstir andstæðingar framkvæmdar geti hugsanlega átt erfitt með að skilja á milli pólitískra skoðana sinna og vísinda?