Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:13:04 (1217)

2002-11-07 14:13:04# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Dæmalaust skeytingarleysi ríkisstjórnar Íslands virðist ætla að leiða til þess að mörg hundruð af bestu og dýrmætustu listaverkum 20. aldar fari úr almenningseigu í einkaeign. Morgunblaðið á heiður skilinn fyrir að vekja athygli á þessu stórmáli í blaðinu í morgun. Þessi 1.200 verk í eigu Landsbanka og Búnaðarbanka eru ómetanleg að mati listfræðinga. Vissulega hefði átt að huga að þessum verðmætum og tryggja að þau færu ekki úr þjóðareign áður en bankarnir voru gerðir að hlutafélögum og sala þeirra hófst. Þar brugðust stjórnvöld. Listaverkakaup ríkisbankanna voru ávallt réttlætt með því að þannig varðveittust okkar dýrmætustu verk í eigu þjóðarinnar. Þeir sem nú kaupa bankana eru að kaupa fjármálastofnanir, ekki listasöfn.

Ég skora á handhafa hlutabréfa í Búnaðarbanka og Landsbanka að gefa íslensku þjóðinni verkin aftur. Ég skora á þá að setja á stofn sjálfseignarsjóð og stofna nýtt listasafn, Listasafn Búnaðarbanka og Landsbanka, og afhenda þjóðinni safnið til eignar. Listasafn Íslands gæti séð um rekstur þessa safns. Einnig mundu listaverkin þá komast til þjóðarinnar að nýju og þannig yrði tryggt að komandi kynslóðir fengju notið þessara þjóðargersema og menningararfs. Það væri hluthöfum til mikils sóma en ríkisstjórn Íslands til háðungar.