Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:27:42 (1271)

2002-11-11 17:27:42# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:27]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég sakna þess að hv. þm. segi okkur bara hvernig hann vill hafa skattkerfið. Ég benti mönnum á að á þskj. 348 kemur skýrt fram hvað gerist ef skattleysismörkin hækka almennt úr rúmum 70 þús. kr. þar sem þau eru í dag fyrir launþega og upp í 81.500 kr. Jú, þá aukast ráðstöfunartekjurnar um rúmar 4 þús. kr. á mánuði en það kostar ríkissjóð á milli 9 og 10 milljarða á ári. Skattfrelsismörkin hækka um 11 þús. á mánuði og ráðstöfunartekjurnar um rúmar 4 þús. á mánuði. Þetta kostar milli 9 og 10 milljarða á ári.

Þetta yrði ekki markverð aðgerð vegna þess að hún skilar sér til allra skattgreiðenda, ekki bara til þeirra sem eru við þessi mörk. Þess vegna er miklu markvissara að ná til slíkra hópa með öðrum aðgerðum. Það er það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera, m.a. með sérstökum hækkunum bótaflokka, hækkunum barnabóta og öðru þess háttar sem fram hefur komið, m.a. undanþiggja húsaleigubætur skattskyldu o.s.frv. Það er ekki markviss aðgerð að hækka skattfrelsismörk okkar allra í þessum sal með þessum hætti. Það tel ég ekki vera. Ég skora á þingmanninn og flokksmenn hans, ef þeir hafa annað betra kerfi fram að færa, að sýna okkur það þá.