Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:47:20 (1278)

2002-11-11 17:47:20# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:47]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það fer ekki á milli mála að ef menn hækka persónuafsláttinn þá er það bein hækkun á ráðstöfunartekjum. Það þýðir ekkert að tala um að einhver þúsund kall verði 380 kr. ef persónuafslátturinn er hækkaður. Um þetta snýst málið í raun og veru. Mér finnst að kannski væri ástæða til þess að menn kæmu sér þá bæði niður á það að tala um stærðirnar yfir eitt ár en ekki á mánuði til þess að vera ekki sífellt að rugla fólk í ríminu og líka að menn töluðu um hugtakið persónuafslátt en ekki skattfrelsismörkin vegna þess að það er auðvitað persónuafslátturinn sem fólk er raunverulega að tala um þegar það er að tala um þá skattahækkun sem það hefur fengið.

Mér finnst engin ástæða til þess að flækja málið með þeim hætti sem hæstv. ráðherra er hér að gera. Það er alveg á hreinu að ef menn hækka persónuafsláttinn þá hækka ráðstöfunartekjurnar í beinu hlutfalli við það.