Verndun hafs og stranda

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 14:57:07 (1306)

2002-11-12 14:57:07# 128. lþ. 27.6 fundur 240. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú sem hér stendur hefur beitt sér af öllu afli gegn Sellafield. Reyndar er helmingunartíminn á teknesíum-99 213 þús. ár, ekki svo að það skipti nokkru máli. En þetta er gífurlega langur tími. Þynningin er samt þúsundföld á leiðinni þannig að við erum með þúsundfalt minni mengun hér norðan við okkur en er í írska hafinu, enda mótmæla Írar hástöfum.

Þrátt fyrir þessa mengun mælist hún ekki yfir neinum lágmarksgildum sem sett hafa verið. Þess vegna er svo erfitt að knýja fram stöðvun á þessari starfsemi. Við vitum ekki hvernig þessi efni hegða sér til langs tíma og því vilja menn hafa varann á og mótmæla þess vegna losun teknesíum-99 í hafið. Geislavirku efnin eru mæld við Ísland og það er AMSUM-hópurinn sem heldur utan um þessar mælingar en Geislavarnir ríkisins, ef ég man rétt, sjá um þær. Gildin hafa ekki mælst hærri við Ísland. Það tekur 7--10 ár fyrir efnin að fara frá Sellafield upp með vesturströnd Noregs að Svalbarða og niður að Íslandi. Þá verður gífurleg þynning á leiðinni. Við erum eiginlega síðasta stoppistöðin í þessum hring, má segja, og þess vegna er hin beina hætta ekki mikil hér. En það sem við höfum áhyggjur af er ímynd sjávarafurða af því að markaðurinn er mjög viðkvæmur. Þess vegna hefðum við viljað pressa á að þeir hættu þessari losun. Gildi þessa efnis hafa ekki mælst hærri við Ísland út af þessari losun en hún gæti farið að mælast. Árið 1994 juku þeir losunina á teknesíum í hafið og senn líður því að því að áhrif þeirrar aukningar mælist hér við land.

Þetta er auðvitað geysilega erfitt mál í Bretlandi þar sem mörg störf hanga á spýtunni, þ.e. um 11 þúsund störf.