Sjálfbær ferðamennska og umhverfisvernd

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 16:01:19 (1403)

2002-11-13 16:01:19# 128. lþ. 29.10 fundur 123. mál: #A sjálfbær ferðamennska og umhverfisvernd# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[16:01]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þó ég sé ekki sammála honum að unnið hafi verið í anda þeirrar framkvæmdaáætlunar sem hæstv. ráðherra setti sjálfur 1998, vegna þess að ég tel að flestar ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur tekið varðandi náttúruna og verndun þeirrar auðlindar sem hún er gagnvart ferðamennskunni hafi verið neikvæðar. Þær hafi bara ósköp einfaldlega verið neikvæðar.

Það er sannarlega rétt að sú ímynd okkar að við höfum sérstöðu hvað varðar umhverfismál er að fölna. Hún er býsna mikið að fölna þegar horft er til þess að til okkar streyma mótmæli við aðgerðum okkar á sviði náttúruverndarmála hvaðanæva að úr heiminum. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa orðið var við það eins og aðrir þingmenn.

Þegar sett eru fram markmið eins og komu fram 1998 og það sem hefur áunnist er einungis að geta gert samninga um einhverja helgarpakka í takmarkaðar útsýnisferðir, það er ekki heildarstefna, það er í raun og veru ekkert til að mikla sig af.

Í skýrslunni í sambandi við framkvæmdaáætlunina er talað um þær verðmætu perlur sem við eigum sem eru einstæðar á heimsmælikvarða. Og það er alveg ljóst að ríkisstjórnin stendur ekki að því að vernda þessar einstæðu auðlindir. Í skýrslunni segir: ,,Landið býr yfir ómetanlegum auðlindum til ferðaþjónustu, auðlindum sem senn verða af skornum skammti í heiminum ef svo heldur fram sem horfir.``

Í hvers höndum er það, hæstv. ráðherra, að halda fram eins og nú horfir? Því miður í höndum ríkisstjórnarinnar fram að 10. maí.