Stjórnsýslulög

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 11:14:15 (1476)

2002-11-14 11:14:15# 128. lþ. 30.1 fundur 348. mál: #A stjórnsýslulög# (rafræn stjórnsýsla) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[11:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu þarft og á sínum stað að við höldum áfram að þróa stjórnsýslu okkar þannig að við nýtum okkur kosti og möguleika rafrænnar tækni. Þetta frv. er þar af leiðandi sjálfsagður liður í slíkum undirbúningi og ég sé ekki ástæðu til að hafa um það mörg orð.

Það er fyrst og fremst tvennt sem mig langar til að nefna og/eða spyrja hæstv. forsrh. um. Mundi það þegar talað er í frv. um rafræna miðlun upplýsinga við meðferð mála vera fullnægjandi heimild til að taka upp rafrænar kosningar? Þetta var hið fyrra. Nú er mér að sjálfsögðu ljóst að til þess þarf þá jafnframt að breyta kosningalögum o.s.frv. en hér er verið að setja inn almennan ramma um stjórnsýsluna og ákveða að rafræn miðlun upplýsinga, rafræn miðlun boða, geti farið fram. Þá vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé nokkuð í veginum að í framhaldinu verði kosningalögum þannig breytt að rafrænar kosningar geti hafist eða a.m.k. að menn hefji undirbúning að þeim, t.d. að rafrænir kjörstaðir komi til sögunnar.

Ef ég man rétt hefur landsfundur Sjálfstfl. að vísu ályktað eitthvað um þetta mál og lagst heldur gegn því að taka upp rafrænar kosningar en í ljósi þess áhuga sem hæstv. forsrh. sýnir hér með flutningi þessa frv. um rafræna stjórnsýslu hlýt ég að gefa mér að þar sé að verða breyting á.

Það seinna sem ég vil nefna varðar varðveislu gagna sem er auðvitað gríðarlega stórt mál. Ég spyr hæstv. forsrh. hvernig Þjóðskjalasafnið sé í stakk búið til að takast á við það hlutverk sem það hlýtur þá að fá hvað varðar varðveislu rafrænna gagna. Ég tel ástæðu til að ætla að þegar sé áhyggjuefni hvernig sá hluti stjórnsýslunnar og samskipta manna sem horfinn er inn í hinn rafræna heim verði varðveittur. Ég nefni sem dæmi að tölvupóstur er farinn að koma við sögu í dómsmálum og notaður sem réttargögn án þess að nokkrar reglur gildi um varðveislu hans.