Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:48:07 (1633)

2002-11-19 17:48:07# 128. lþ. 32.13 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:48]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Maður áttar sig ekki á því hvar maður er staddur þegar hér kemur upp þingmaður sem er kunnugur úti á landi og heldur því fram að samgöngur skipti ekki máli í sambandi við flutning á vörum. Hann segir að betri vegir skipti ekki máli við að lækka flutningskostnað. Hvers konar útúrsnúningur (Gripið fram í.) er þetta hjá hv. þm.? Hann segist ekki vera sammála mér um það að betri vegir lækki flutningskostnað. Hann segist ekki vera sammála mér um það að bætt flutningatækni lækki flutningskostnað. Hvers konar útúrsnúningar eru þetta?

Ég held að hv. þm. ætti að reyna að kynna sér þetta stóra kjördæmi þar sem hann ætlar að bjóða sig fram, ætti að reyna að fara til Austurlands og spyrja þá sem þar búa hvort flutningskostaðurinn hafi ekki lækkað á milli Norður- og Austurlands eftir að vegurinn batnaði. Þessi hv. þm. þarf raunar ekki að fara nema til Akureyrar og spyrja þá sem þar eru hvort flutningskostnaðurinn frá Austurlandi til Akureyrar hafi ekki lækkað eftir að vegirnir bötnuðu?

Það er erfitt að eiga viðræður við þingmenn sem tala með þessum hætti. Þeir leggja áherslu á einhvern einn þátt mála og eru með útúrsnúninga þegar reynt er að ræða málin í heild. Auðvitað er kjarni málsins sá að lækkun á kostnaði lækkar vöru. Auðvitað er það rétt og auðvelt að sýna fram á að bætt flutningatækni lækki flutningskostnað.

Hitt getur svo verið, að þessi hv. þm. Samfylkingarinnar, eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar, einn af fulltrúum Samkeppnisstofnunar hér á Alþingi, víki því til hliðar þegar Samkeppnisstofnun úrkurðaði að þungaskatturinn skyldi hækkaður. Vildi þessi hv. þm. ganga gegn úrskurði Samkeppnisstofnunar? Nei. Það heyrðist ekki eitt einasta orð úr hans barka um það.