Virðisaukaskattur á tæki og búnað til háskóla og rannsóknastofa

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 15:06:10 (1676)

2002-11-20 15:06:10# 128. lþ. 34.8 fundur 272. mál: #A virðisaukaskattur á tæki og búnað til háskóla og rannsóknastofa# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[15:06]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég tel ekki að þetta mál snúist um það hugsanlega tekjutap sem ríkissjóður kynni að verða fyrir eins og hv. þm. gerði að umtalsefni. Málið snýst um það hvort við viljum gera fleiri sértækar undanþágur frá meginreglum laganna um virðisaukaskatt. Afstaða mín til þess er alveg skýr. Ég er andvígur því. Ég tel ekki skynsamlegt að ná tilteknum markmiðum, eins og t.d. þeim að hlúa að ákveðnum greinum eða ákveðinni starfsemi, með þeirri leið að undanþiggja viðkomandi starfsemi virðisaukaskatti. Hann á að vera almennur. Hann á að vera víðtækur. Ein undanþága kallar á aðra. Ef sú leið sem hér er rædd yrði farin má búast við því að þegar í stað sprytti upp á öðrum vettvangi eitthvert annað gott mál sem eðlilegt þætti að styrkja með þessum hætti.

Þannig háttar til á Íslandi að rannsóknastarfsemi í háskólum, fyrst og fremst innan Háskóla Íslands, er rekin fyrir opinbert fé að stærstum hluta, fé sem veitt er á Alþingi á fjárlögum. Því er miklu skynsamlegri leið, ef menn vilja hlúa frekar að því sem þar er gert, að beita sér fyrir auknum fjárveitingum en því sem hér er lagt til.

Þó má þess geta, herra forseti, að í virðisaukaskattslögunum er ákvæði um að endurgreiða skuli virðisaukaskatt af rannsóknartækjum sem óskattskyldir rannsóknaraðilar kaupa fyrir styrkfé eða fá að gjöf. Þar er um að ræða undanþágu sem er annars eðlis en það sem hér er verið að tala um. Hún var sett í þessi lög að mínu frumkvæði fyrr á þessu ári.

Hins vegar var á árunum 1999 og 2000 unnið ítarlega að endurskoðun virðisaukaskattskerfisins og nefndarálit gefið út um það efni í mars árið 2000 þar sem farið var yfir tíu ára reynslu af skattkerfinu og framkvæmd þess. Þar var ekki talið koma til athugunar neitt sérstaklega það mál sem hv. þm. gerir hér að umtalsefni. En þau eru auðvitað óteljandi hin góðu mál sem undanþiggja mætti virðisaukaskatti ef menn á annað borð færu út í þá sálma.