Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:09:03 (1755)

2002-11-27 14:09:03# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:09]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er einfaldlega rangt hjá hv. þingmanni að sala ríkiseigna standi undir afgangi ríkissjóðs á umliðnum árum. Afgangur ríkissjóðs hefur verið miklu meiri en svo.

Í öðru lagi, herra forseti, hef ég margsinnis haldið þessa sömu ræðu á Vestfjörðum og um allt Norðvesturlandið þannig að hún á ekki að koma neinum þar á óvart.

Sú stefna og ríkiseinokun sem er í gangi varðandi þorskveiðarnar er að sliga þessar byggðir. Og þetta eru ekki ný ummæli frá minni hendi heldur hef ég haldið slíkar ræður um allt þetta nýja kjördæmi og Vestfirði alla. Þingmaðurinn skal alveg gera sér grein fyrir því að það hefur engum komið á óvart, ekki vestfirsku fólki né öðrum íbúum Norðvesturkjördæmisins, sem ég sagði hér áðan.