Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 15:26:01 (1776)

2002-11-27 15:26:01# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[15:26]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gleymdi ekki meginþáttum í ræðu hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar. Ég held ég hafi komið að nokkrum þáttum en meiningin var nú ekki að kryfja spjall hans eða ræðu til mergjar.

En ég ætla að taka undir með hv. þm. þegar hann nefnir samninga, og þá á ég helst við það --- og væri nú gott fyrir hæstv. fjmrh. að hlusta --- að þegar búið er að gera kjarasamninga og fjárveitingar fylgja ekki með í samræmi við þá, það eru slæmu málin. Hins vegar er, virðulegur forseti, búið að vekja upp væntingar, og það var það sem hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason kom hér inn á áðan, það er búið að vekja upp væntingar með ádrætti um samkomulag. Það er hægt að nefna skóla, það er hægt að nefna heilsugæslu og ýmsa þjónustu sem ráðuneytin eru að leggja inn gott orð fyrir. Það eru slæmu hlutirnir og það eru slíkar væntingar sem á ekki að gefa. Það á ekki að lofa því eða gefa von um að heilsugæslan fari í lag með því að það megi byggja o.s.frv. eða væntingar um að byggja upp skóla. Það eru slíkir hlutir sem eru nánast óþolandi.

Þetta erum við sammála um, ég og hv. þm., en ég vil taka undir með honum þakkir til þeirra starfsmanna sem með okkur hafa unnið. Það er allt af mestu kostgæfni leyst af hendi.